Þurftum að sótthreinsa bananana

Marta Sif og Arna Björk voru með pabba sínum, Þór …
Marta Sif og Arna Björk voru með pabba sínum, Þór Sigurgeirssyni, í einangrun í bústaðnum. mbl.is/Ásdís

Fyrsta október greindist fjölskyldufaðirinn Þór Sigurgeirsson með kórónuveiruna, en hann hafði verið með vinnufélögum í skemmtiferð. Átta af fimmtán starfsmönnum greindust með veiruna og smituðu svo fleiri. Þór og kona hans María Björk Óskarsdóttir eiga fjögur börn á aldrinum tíu til 22 ára. Til þess að vera í einangrun frá hinum í fjölskyldunni flúði Þór í sumarbústað við Meðalfellsvatn. Fimm dögum síðar kom í ljós að tvítug dóttir hans, Arna Björk, var einnig smituð og fór hún því í sveitina til pabba síns. Hinir í fjölskyldunni þurftu þá að byrja sóttkví upp á nýtt. Þann tólfta október fór fjölskyldan enn á ný í skimun, og þá greindist Marta Sif, þrettán ára, með kórónuveiruna. Ballið byrjaði upp á nýtt. Marta fór í einangrun í sveitina og hinn helmingur fjölskyldunnar byrjaði í sóttkví enn og aftur.

Arna og Marta hafa tekið ástandinu með æðruleysi og segja tímann í bústaðnum hafa verið fljótan að líða.

Hvernig líður ykkur stelpur?

„Ég var að útskrifast í dag og er hætt að smita,“ segir Arna, nemi í sálfræði í Háskóla Íslands.

Hvernig tókstu fréttunum að þú værir með Covid?

„Ég var svekkt, en ég bjóst alveg eins við því þar sem pabbi var nýbúinn að smitast. Ég var einkennalaus kvöldið áður en ég greindist en vaknaði svo með öll einkennin og dreif mig í skimun. Ég varð svolítið veik, ég fékk rosalega mikið kvef, beinverki og andþyngsli en slapp við hita, hósta og hálsbólgu.“

Arna Björk og Marta Sif Þórsdætur reyndu að stytta sér …
Arna Björk og Marta Sif Þórsdætur reyndu að stytta sér stundir yfir sjónvarpi og lærdómi. Einnig tók Marta sig til og þreif allt hátt og lágt. Ásdís Ásgeirsdóttir

Varst þú, Marta, alveg einkennalaus, en samt smituð?

„Já, einkennalaus þegar ég greindist en ég er nú búin að vera kvefuð og með smá hausverk, en annars góð,“ segir Marta, nemandi í Valhúsaskóla.

Hvað eru þið búin að hafa fyrir stafni með pabba?

„Það er búið að horfa á mjög mikið sjónvarpsefni og eftir að ég fór að hressast reyndi ég að læra aðeins. Ég er búin að skrifa ritgerð. Annars er ekkert mikið hægt að gera hér, máttum eðlilega ekki fara út. Við höfum verið dugleg að búa til bröns í hádeginu,“ segir Arna.

Þór skýtur inn í að búið sé að horfa á ýmsa stelpuþætti eins og America’s Top model og New Girl.

Marta, ertu búin að vera dugleg að læra á netinu?

„Nei, ég er búin að vera meira að ganga frá, taka til og þrífa. Það var svolítið rusl þegar ég kom,“ segir hún og pabbi hennar skellihlær.

Á meðan var hinn helmingur fjölskyldunnar í sóttkví á heimili þeirra á Seltjarnarnesi.  

Daníel Þór Þórsson, tíu ára, og Sara Bryndís Þórsdóttir, 22 ára, eru í sóttkví með móður sinni, Maríu. 

Þið sluppuð við að smitast en lendið í heljarinnar sóttkví!

„Já, nítján daga sóttkví. Við komumst í gegnum þrjá smitaða í fjölskyldunni, án þess að smitast, en þau greindust öll á mismunandi tímum,“ segir Sara, laganemi við Háskóla Íslands.

Sara Bryndís og Daníel Þór Þórsbörn eru hinn helmingur systkinahópsins. …
Sara Bryndís og Daníel Þór Þórsbörn eru hinn helmingur systkinahópsins. Á meðan systur þeirra voru í einangrun, voru þau í sóttkví í nítján daga. mbl.is/Ásdís

Hvernig er þessi tími búinn að vera?

„Dagarnir bara flæða, það eru allir dagar eins. Þegar einhver greindist aftur var maður svekktur og áhyggjufullur en svo þegar leið á róaðist maður aðeins,“ segir Sara.

Fenguð þið sjokk þegar pabbi ykkar greindist?

„Já, mjög mikið,“ segir Daníel, nemi í Mýrarhúsaskóla.

 „Pabbi var líka mjög veikur, en var kannski ekkert að segja okkur allt til að hræða okkur ekki,“ segir Sara.  

Hvernig hefur þér liðið í sóttkví, Daníel?

„Mér leið alveg vel en það var leiðinlegt að komast ekki í skólann eða neitt. Og fá ekki að leika við vini. Mér er búið að leiðast mikið. Ég er mest búinn að horfa á sjónvarpið, læra og vera í Playstation.“

María skýtur inn í að drengurinn hafi fengið ótakmarkaðan tölvutíma, því þar hafði hann líka tækifæri til að tala við vini sína. Einnig hafa verið kósíkvöld öll kvöld.

„Já, okkur leiddist ekkert ótrúlega mikið,“ segir Sara.

„Ég var líka í tímum á netinu og að reyna að læra en það var oft mjög erfitt dagana þegar einhver var að greinast. Við þurftum að sótthreinsa allt húsið og koma fjölskyldumeðlim út af heimilinu. Við vorum að sótthreinsa allt sem allir snertu, meira að segja bananana. Það var allt tekið í gegn, hver einasti hlutur. Þá fór einbeitingin og áhyggjurnar jukust, dagurinn á eftir var líka erfiður bara það að ná aftur áttum, þetta hefur verið krefjandi tími ekki síst andlega. Dagurinn sem maður fer í sýnatöku fer líka til spillis, en ég er búin að fara þrisvar núna, en hafði farið einu sinni áður,“ segir Sara og segir það hafa verið mikinn létti í vikunni þegar þau þrjú fengu góðar fréttir úr prófinu. Öll neikvæð.  

Rætt er við fleiri ungmenni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »