250 sjúkraflutningar á 48 tímum

Sjúkraflutingafólk hefur staðið í stórræðum undanfarna sólarhringa við að flytja …
Sjúkraflutingafólk hefur staðið í stórræðum undanfarna sólarhringa við að flytja fólk með Covid-19 meðal annars á Landspítala. Ljósmynd/Landspítalinn

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur farið í 250 sjúkraflutninga síðustu tvo sólarhringa. Af þeim eru 82 sjúkraflutningar með Covid-19-sjúklinga. Afar óvenjulegt er að svo margir sjúkraflutningar séu um helgar. 

Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafa síðustu sólarhringar verið erilsamir en síðasta sólarhringinn var farið í 108 sjúkraflutninga, þar af 29 forgangsflutninga og 38 Covid-flutninga. Sólarhringinn á undan voru sjúkraflutningarnir 142 talsins og þar af 44 sjúkraflutningar með sjúklinga með Covid-smit. 

Covid-19 sjúkraflutningar eru eitt af þeim verkefnum sem slökkvilið landsins …
Covid-19 sjúkraflutningar eru eitt af þeim verkefnum sem slökkvilið landsins sinna. Facebook-síða slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

Meðal verkefna er flutningar á sjúklingum af Landakoti og eins Reykjalundi en hópsýkingar hafa komið upp á báðum stöðum undanfarna sólarhringa. 

Slökkviliðið fór í tvö útköll á dælubíla síðasta sólarhringinn, þar á meðal vegna alelda bifreiðar við Álfhólsveg í Kópavogi um þrjú í nótt.

Bætt við klukkan 7:20

„Við hjá SHS leggjum mikla áherslu á að leysa þessi Covid-tengdu verkefni á sem öruggastan hátt fyrir bæði starfsfólk okkar og skjólstæðinga. Það er sannarlega ekki auðvelt að sinna sjúklingum á vettvangi í fullum hlífðarfatnaði og auk þess fer mikill tími í þrif og sótthreinsun á bílum og búnaði. Við ætlum að klára þetta verkefni með sóma og biðlum til ykkar þarna úti að fara varlega og huga að persónulegum sóttvörnum,“ segir í færslu á facebooksíðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Dagvakt slökkviliðsins á Akureyri hefur einnig haft nóg að gera því í gærdag fór hún í sjö sjúkraflutninga. Þar af eru þrír flutningar Covid-tengdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert