Ekki tilefni til hertra aðgerða

Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Staðan í heilbrigðiskerfinu er orðin alvarleg að sögn Ölmu Möller landlæknis eftir að hópsýking kórónuveirunnar kom upp á Landakoti. 

Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Alma að nú hafi sést greinilega hversu alvarlegt smit á heilbrigðisstofnunum geti verið. Í síðustu viku hafi staðan verið góð og rætt hafi verið að auka við skurðþjónustu á Landspítala, en staðan hafi breyst hratt síðan þá.  

Á heilbrigðisstofnunum víða um land er staðan góð, fyrir utan að aukið álag sé á Suðurnesjum og Vesturlandi. Gera hefur þurft meðferðarhlé hjá tilteknum hópum á Reykjalundi. Covid-göngudeildin sinnir nú yfir 1.000 sjúklingum. Þá er erfiðara að útskrifa fólk af Landspítala vegna smita á Reykjalundi og Landakoti.

Valkvæðum skurðaðgerðum verði frestað

Alma sagðist á fundinum ætla leggja til við heilbrigðisráðherra síðar í dag að valkvæðum skurðaðgerðum sem geta leitt til innlagna á spítala verði frestað. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að ekki væri tilefni til að herða samfélagslegar aðgerðir. Hann sagði að hópsýkingar gætu komið upp hvar sem er, en að nú hafi slík sýking komið upp á versta stað. 

Þórólfur hefur áhyggjur af því að samfélagslegt smit geti aukist út frá þeim einstaklingum sem hafa verið að greinast síðustu daga. Þórólfur brýnir fyrir þeim sem finna fyrir einkennum veirunnar að halda sig heima. Hann skorar á vinnuveitendur að sjá til þess að þessi skilaboð komist til allra. 

mbl.is