Galin ákvörðun að halda próf hjúkrunarfræðinema

Nemendur á 4. ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands eiga …
Nemendur á 4. ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands eiga að mæta í staðpróf á morgun.

Berglind Rós Bergsdóttir, nemi í hjúkrunafræði við Háskóla Íslands segir það vera galna ákvörðun hjá hjúkrunarfræðideild skólans að halda staðpróf á morgun. Hún segir að hjúkrunarfræðideildin ætti að ganga lengra en flestar deildir til að fækka smitleiðum og sýna gott fordæmi. 

„Þríeykið segir: ekki hópa ykkur saman. Á meðan við eigum að hitta einhverja sem við höfum ekki hitt kannski síðan í skólanum í vor eða síðasta haust. Okkur finnst þetta bara galið,“ segir Berglind í viðtali við mbl.is

Fréttablaðið greindi frá því í dag að nemendur á 4. ári í hjúkrunarfræði ættu að mæta í staðpróf í Eirberg á morgun. Um er að ræða próf í klínískri þjálfun og erfitt að hafa marktækt netpróf í þessu efni að mati Guðrúnar Kristjánsdóttur, prófessors í hjúkrunarfræði. 

Tæplega 100 nemendur í hjúkrunarfræði eru boðaðir í prófið á morgun og verður hópnum skipt upp. Nemendur eiga að bera andlitsgrímu þegar þeir koma á prófstað og mega bera grímu á meðan prófi stendur. Prófið er ekki metið til einkunnar en þurfa nemendur að standast prófið til að mega taka lokaprófið. 

„Við erum flest ef ekki allar heilbrigðisstarfsmenn, mörg að vinna á Landspítala sem er núna kominn á neyðarstig. Það er 20 manna samkomutakmark úti í samfélaginu en við eigum að mæta 46 og 47 í einu inn í Eirberg sem er ekki það stór bygging. En það á að vera í lagi af því við eigum að vera með maska,“ segir Berglind

Flestir nemendurnir á 4. ári í hjúkrun eru starfsmenn Landspítalans eða hjúkrunarheimila og þó þeir séu fæstir í áhættuhópi þá eru skjólstæðingar þeirra í þeim hópi. Vinnustaður margra þeirra, Landspítalinn, var settur á neyðarstig í dag vegna hópssmits sem kom upp á Landakoti. 77 smit hafa verið rakin til spítalans og er talið að smitið hafi borist inn á deildina með starfsmanni. 

Ákvörðunin tekin í samráði við Landspítala

Í pósti sem Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti hjúkrunarfræðideildar, sendi á nemendur, kennara og starfsfólk hjúkrunarfræðideildar á föstudag segir hún að deildin fylgi reglum Háskóla Íslands um fyrirkomulag kennslu, prófa og námsmat. 

„Ég hef alla daga frá því faraldurinn kom upp verið að vega og meta annarsvegar gæði námsins og hinsvegar að öryggi nemenda og starfsfólks sé tryggt. Gæði námsins eins og það hefur verið undanfarin ár eru mjög góð miðað við ytri úttektir á náminu. Það hef að leiðarljósi. Leiðarljós mitt varðandi öryggi eru tilmæli sóttvarnarlæknis, tilmæli HÍ og samráð við Landspítala,“ segir Herdís í bréfi sínu.

„Ég hef þetta samráð við Landspítala út af þeim rökum nemenda að þeir séu í klínísku námi/starfi og ættu því síður að mæta í staðkennslu/próf. Niðurstaða þessa er að í lagi sé að þessir nemendur fylgi reglum HÍ líkt og aðrir nemendur“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert