„Töldum henni trú um að henni væri betur borgið þarna“

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Golli

Aðstandendur konu sem greindist með kórónuveiruna á Landakoti fyrir helgi hafa áhyggjur af því að aðstandendur smitaðra á Landakoti geti hafa smitast af veirunni. Eiginmaður konunnar reyndist sýktur af veirunni, en hann hafði ekki verið settur í sóttkví eftir heimsókn á Landakot. 

Móðir Sigurjónu Jónsdóttur var flutt á Landspítala vegna slæms beinbrots nýverið og var í kjölfarið flutt á Landakot. Á föstudag fengu Sigurjóna og systkini hennar fregnir af því að móðir þeirra hefði sýkst af Covid-19. Það kom síðan í ljós á laugardag að faðir þeirra var einnig smitaður. 

„Það sem við spyrjum okkur að og höfum áhyggjur af er hvort það séu margir þarna úti í sömu stöðu og pabbi; hugsanlega sýktir án þess að vita það enn þá. Það er fullt af aðstandendum þarna, eldra fólki, sem er ekkert endilega að hugsa út í það. Það stóð ekki til að senda pabba í skimun samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk og þá spyr maður sig, hann er væntanlega ekki sá eini,“ segir Sigurjóna í samtali við mbl.is. 

Systkinin velta fyrir sér hvernig svo stór hópsýking hafi getað komið upp á heilbrigðisstofnun. 

„Ef það eru einhverjir verkferlar í gangi hljóta þeir að eiga að lágmarka þetta þegar svona gerist. Þetta er svo mikill fjöldi starfsmanna sem þarna um ræðir að maður veltir fyrir sér hvernig þetta gerist af svona stærðargráðu,“ segir Sigurjóna. 

Hafa engar upplýsingar fengið

„Mamma var búin að vera mjög Covid-hrædd og við töldum henni trú um að henni væri betur borgið þarna, sem hún vissulega þurfti á að halda. Við vorum aldrei látin vita þegar hún reyndist jákvæð eða hvert framhaldið yrði, við höfum enn ekki verið látin vita af því.

Það er vel hugsað um hana eins og staðan er í dag, það er ekki málið, en ef verkferlum hefur verið fylgt veltir maður því fyrir sér hvað fór úrskeiðis. Sjúklingar sem fara inn á spítala eiga ekki að vera í verri stöðu eftir að hafa verið þar. Auðvitað er kannski óhjákvæmilegt að svona komi upp, en maður spyr sig hvað fór úrskeiðis úr því að þetta er svona svakalegur fjöldi starfsmanna sem um ræðir,“ segir Sigurjóna. 

Að frumkvæði systkinanna fór faðir þeirra í sýnatöku á laugardag og í ljós kom að hann hafði smitast af veirunni. Sigurjóna segist óttast að fleiri aðstandendur þeirra sem smitast hafa á Landakoti gætu hafa verið útsettir fyrir smiti. 

„Við óttumst að þetta séu margir miðað við að það var ekkert spáð í pabba eða aðra sem höfðu verið hjá mömmu. Það stóð ekki einu sinni til að setja pabba í sóttkví, við sendum hann sjálf í sýnatöku og báðum hann að halda kyrru fyrir þegar þetta fréttist. Maður myndi ekki vilja sjá að þetta endurtæki sig eða fleiri sýktust þegar það er hugsanlega hægt að koma í veg fyrir það,“ segir Sigurjóna.

Mamma "fagnaði" 80 ára afmæli sínu á Landspítala, vegna slæms beinbrots, um daginn og var svo flutt á Landakot. Núna á...

Posted by Þórður Már Jónsson on Sunnudagur, 25. október 2020



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert