Katrín í öðru sæti fyrir lokaviðureignina

Katrín Tanja er í öðru sæti með 590 stig fyrir …
Katrín Tanja er í öðru sæti með 590 stig fyrir lokaviðureign crossfit-heimsleikanna. Ljósmynd/Facebook

Katrín Tanja Davíðsdóttir er í öðru sæti í lokaúrslitum á crossfit-heimsleikunum sem fara fram í Kaliforníu í Bandaríkjunum um helgina. Ellefu viðureignir af tólf hafa farið fram og er því aðeins ein viðureign eftir. 

Hin ástralska Tia Clair Toomey situr í fyrsta sæti með yfirburðum en hún hefur sigrað í níu af ellefu viðureignum. Toomey er með 970 stig í fyrsta sætinu. Katrín Tanja er með 590 stig í öðru sæti og á enga möguleika til að sigra Toomey. Toomey hefur sigrað heimsleikana síðastliðin þrjú ár og bætir því fjórða titlinum við safnið í kvöld.

Á eftir Katrínu er hin 19 ára gamla Haley Adams í þriðja sæti með 525 stig og getur hún því komist yfir Katrínu. Það veltur því allt saman á síðustu viðureigninni sem fer fram klukkan 22 í kvöld að íslenskum tíma. Í fjórða sæti er Brook Wells með 510 stig og Kari Pearce vermir botnsætið með 485 stig.

Tvær viðureignir hafa farið fram í dag og lenti Katrín í þriðja sæti í báðum greinum. 

Lokaviðureign dagsins ber nafnið Atalanta en þegar þetta er skrifað hefur ekki verið tilkynnt um hvaða æfingar keppendur þurfa að framkvæma í henni. Dave Castro, framkvæmdastjóri Crossfit, hefur þó gefið út að hún muni mögulega verða sú erfiðasta í sögu heimsleikanna.

Fraser á toppnum 

Í karlaflokki er Mat Fraser á toppnum með svipaða yfirburði og Toomey í kvennaflokki. Fraser er með 1050 stig og í öðru sæti er Samuel Kwant með 590 stig. Spennan er því mest um hverjir komast á verðlaunapallinn hjá körlunum. 

Í þriðja sæti er Justin Medeiros með 505 stig og á eftir honum er Jeffrey Adler með 470 stig. Noah Olsen er í 5. og síðasta sæti með 465 stig. 

mbl.is