Landspítalinn á neyðarstig

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson.

Landspítalinn starfar nú á neyðarstigi og hefur verið færður af hættustig. Boðað hefur verið boðað til blaðamannafundar vegna þessa klukkan 15 í dag. Af 58 nýjum kórónuveirusmitum í gær er um helmingur rakinn til Landakots. 39 einstaklingar yfir áttrætt eru nú veikir af Covid-19.

Að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns tengj­ast smit­in á Reykjalundi einnig Landa­koti og það sama á við um hjúkr­un­ar­heim­ilið á Eyr­ar­bakka.

Í viðbragðsáætlun Landspítalans segir svo um neyðarstig: Á neyðarstigi er umfangið svo mikið að nauðsynlegt er að virkja LSH að fullu. Ákvörðun um viðbragðsstig er tekin til hliðsjónar við stærð verkefnis fyrir LSH og ástands innan stofnunar. LSH starfar því oft ekki á sama viðbragðsstigi og aðrir í almannavarnakerfinu. Viðbragðsstjórn Landspítala ákveður hverju sinni viðbragðsstig Landspítala.

Landspítalinn fór aldrei á neyðarstig í fyrstu bylgju faraldursins að því er fram kom í forstjórapistli Páls Matthíassoar 29. maí en starfaði samkvæmt hættustigi viðbragðsáætlunar spítalans til 18. maí. 

Fundurinn verður haldinn í fjarfundi á undan upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis og með sama sniði. Sá fundur verður haldinn strax í kjölfar þessa fundar og í sama streymi, en áætlað upphaf hans er kl. 15:30. Fundarlok eru áætluð um kl. 16:00. 

Á fundi Landspítala verða Páll Matthíasson forstjóri og Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar og formaður farsóttarnefndar Landspítala, ásamt landlækni, Ölmu Möller. Á upplýsingafundinum í kjölfarið verða landlæknir áfram, ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert