Málum hjá ákæruvaldi fjölgaði um 40%

mbl.is/Hari

Heildarfjöldi mála sem komu til meðferðar hjá ákæruvaldinu á árinu 2019 jókst um 40% frá árinu á undan. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari gefur þær skýringar að allt haldist í hendur, fjölgun á kærum til lögreglu leiði til fleiri mála hjá ákæruvaldinu, sem þýði að fleiri niðurfellingar eru kærðar til ríkissaksóknara, og fleiri ákæra og þar með fleiri mála í dómi og þar fram eftir götunum.

Tölur um fjölda mála og ákæra og fleiri þætti koma fram í ársskýrslu ríkissaksóknara fyrir árið 2019 og hluti er tekinn upp í meðfylgjandi graf.

mbl.is

Alls sættu 2.764 einstaklingar ákæru. Mikill meirihluti þeirra er karlmenn og fjölmennustu hóparnir eru á þrítugs- og fertugsaldri. Flokkað eftir ríkisfangi eru Pólverjar og Litháar fjölmennastir, fyrir utan Íslendinga. Út frá þessu má segja að hinn dæmigerði afbrotamaður sé íslenskur karlmaður á þrítugsaldri.

Lásu 1.864 héraðsdóma

Ríkissaksóknari hefur eftirlits-, kæru- og samræmingarhlutverk. Stærstu einstöku málaflokkar við embættið eru meðferð mála og málflutningur á áfrýjunarstigi fyrir Landsrétti og Hæstarétti sem og afgreiðsla kærumála vegna ákvarðana lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að hætta rannsókn, fella mál niður eða falla frá saksókn.

Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá ákærendum á lægra stigi, það er að segja héraðssaksóknara og níu lögreglustjórum. Eftirlitið felst meðal annars í yfirlestri allra uppkveðinna héraðsdóma, viðurlagaákvarðana og lögreglustjórasekta og meðferð kærumála vegna ákvarðana lögreglustjóra og héraðssaksóknara. Á árinu 2019 bárust embættinu 1.864 héraðsdómar til yfirlestrar.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari í dómsal.
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari í dómsal. mbl.is/Þórður

Fjölga þarf starfsfólki

„Ég er ágætlega sátt við stöðu/afgreiðslu mála hjá ríkissaksóknara í árslok 2019 en með hliðsjón af þessari þróun er ljóst að fjölga þarf starfsfólki við embættið hið fyrsta svo hægt sé að halda í horfinu,“ segir Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari í skriflegu svari. Hún vísar í bréf til dómsmálaráðuneytisins þar sem farið er fram á fjölgun um þrjú og hálft stöðugildi saksóknara og eitt stöðugildi skrifstofumanns vegna aukinna verkefna. Sigríður segir að vegna gjörbreyttrar stöðu ríkissjóðs vegna afleiðinga af kórónuveirufaraldrinum hafi beiðni um auknar fjárveitingar ekki fengið afgreiðslu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert