Þrettán íbúar Sólvalla smitaðir

Á Eyrarbakka.
Á Eyrarbakka. mbl.is/Sigurður Bogi

Þrettán íbúar og fjórir starfsmenn öldrunarheimilisins Sólvalla á Eyrarbakka hafa greinst með kórónuveiruna. 

Jóhanna Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur á Sólvöllum, segir í samtali við mbl.is að til hafi staðið að senda smitaða íbúa til Reykjavíkur en að það hafi ekki gengið. „Það breytist allt mjög mikið. Þetta gekk alla vega ekki í dag og þau verða áfram hjá mér í nótt og eitthvað á morgun allavega. Þau eru ekki svo lasin og eru komin á veirulyf,“ segir Jóhanna.

Nítján íbúar eru á Sólvöllum og reyndust sex neikvæðir eftir sýnatöku. Tveir íbúar greindust með veiruna í fyrradag og voru fluttir til Reykjavíkur. Ellefu til viðbótar greindust síðan í gærkvöldi. Allir starfsmenn Sólvalla eru í sóttkví. Einn íbúi Landakots, þar sem upp hefur komið hópsýking, flutti á Sólvelli fyrir rúmri viku og var á meðal þeirra sem greinst hafa með veiruna á Sólvöllum. 

Aðstæður á Landspítala sett strik í reikninginn

„Það eru allir að reyna að gera eins gott úr þessu og hægt er. Starfsfólkið er allt komið í sóttkví en er tilbúið að vinna í sóttkví B-1, sem þýðir að það getur unnið og er síðan í sóttkví heima hjá sér á milli. Skjólstæðingar okkar eru í fyrsta sæti og við gerum allt sem við getum til þess að það fari vel um þau,“ segir Jóhanna. 

Jóhanna segir að flytja ætti smitaða íbúa til Reykjavíkur til að tryggja betri aðstæður fyrir sjúklingana. Aðstæður á Landspítala nú hafi sett strik í reikninginn. „Við verðum að finna bestu leiðina og sjá hvernig gengur. Við metum þetta bara klukkutíma frá klukkutíma. Það koma upp góðar hugmyndir og úrlausnir en svo kemur babb í bátinn og þá þarf að breyta öllu aftur. Það eru allir þolinmóðir og bíða eftir lokaniðurstöðu,“ segir Jóhanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert