Fólk „tilbúið að taka 10 ára börn af lífi“

Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmaður.
Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmaður í handbolta, segir að fólk þurfi að gæta orða sinna þegar það tjáir sig um eineltismál. Ekki sé rétt að draga kennara eða skólastjórnendur niður í svaðið vegna einstakra mála.

Tilefni færslu sem Björgvin setti á Facebook er eineltismál sem hefur verið í umræðunni síðustu daga.

„Síðasti sólarhringur hefur verið ein mín mesta rússíbanaferð í lengri tíma. Þetta byrjaði allt þegar ég setti mig í samband við strák sem er í erfiðleikum og í framhaldinu deili ég myndbandi sem átti eftir að fara með mig á mikið tilfinningaferðalag tengt eineltismálum. Ferðalag þar sem ég hef grátið af bæði leiða og vonbrigðum með okkur sem samfélag,“ skrifar Björgvin.

„Til að byrja með þurfa allir að átta sig á alvarleika þess að tjá sig um svona erfið og þung mál. Það að ætla að skipta sér í fylkingar í svona málum er gjörsamlega galið! Það hversu stutt við erum komin í eineltismálum hefur lítið að gera með skólakerfið okkar, einhverja ákveðna skóla og hvað þá ákveðið starfsfólk. Skólarnir eru stútfullir af hæfileikaríku fólki sem vill gera vel. Það að rífa kennara eða skólastjórnendur niður í svaðið er alveg sérstaklega ömurlegt því að þau geta ekki svarað fyrir sig með neinum hætti.“

Björgvin segir að ábyrgðin á eineltismálum liggi alveg eins hjá samfélaginu.

„Það sem ég hef orðið vitni að á samfélagsmiðlum og eins í kommentankerfum sýnir að mínu mati rót vandans. Fólk er hreinlega tilbúið að taka 10 ára börn af lífi og láta þung orð falla um mál sem það veit ekkert um. Við leysum ekki vandamálin með því að „glæpavæða“ gerendur eineltis, einbeita okkur að refsiaðgerðum og klína ábyrgðinni á kerfið, skólann eða fólk sem er að gera sitt besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert