Sofnaði líklega undir stýri

Slysið átti sér stað á Snæ­fells­vegi, nærri bæn­um Gröf við …
Slysið átti sér stað á Snæ­fells­vegi, nærri bæn­um Gröf við Kleifá á Snæ­fell­nesi. Kort

Ökumaður bíls, sem hafnaði utan vegar við bæinn Gröf á Snæfellsnesi í október á síðasta ári með þeim afleiðingum að einn lést, sofnaði líklega undir stýri. Ökumaðurinn hafði komið ásamt fjölskyldu sinni frá Bandaríkjunum um morguninn.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Fjölskyldan var að aka vestur Snæfellsveg en við bæinn Gröf liggi vegurinn í vinstri beygju í vesturátt. Ökumaðurinn hafi ekki fylgt beygjunni heldur ekið út af. Á vettvangi voru ummerki um að ökumaður hafi reynt að beygja aftur inn á veginn með þeim afleiðingum að bifreiðin snerist í vegfláanum og valt nokkrum sinnum.

Hjón frá New York og þrjú börn þeirra voru í bílnum en slysið varð skömmu eftir hádegi 12. október í fyrra. 

17 ára drengur hjónanna lést en hann og systir hans köstuðust út úr bílnum, sem valt 40 metra. Stúlkan lá undir bílnum þegar vegfarendur komu að slysinu. Þeir eru taldir hafa bjargað lífi hennar með því að velta bílnum af henni og hefja endurlífgun.

„Ökumaður bifreiðarinnar í þessu slysi kom til landsins með flugi morguninn fyrir slysið. Tímamismunur og næturflug gerir það að verkum að margir farþegar eru þreyttir við komuna til landsins. Að mati RNSA er mikilvægt að fræða flugfarþega sem koma úr millilandaflugi um þá áhættu sem þreyttur ökumaður skapar sjálfum sér og öðrum í umferðinni,“ segir í skýrslunni.

mbl.is