Starfsemin í ákveðnum lamasessi

Engar upplýsingar hafa borist um fleiri smit á meðal sjúklinga og starfsmanna Reykjalundar en verið er að taka stöðuna jafnóðum.

Þetta segir Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar.

Í tilkynningu sem birtist í gær kom fram að meðferðarhlé yrði gert í þessari viku vegna stöðunnar sem er uppi. „Þetta þýðir að endurhæfingarmeðferð á milli 100 og 200 manns truflast,“ segir Pétur.  

Alls hafa tíu sjúklingar og starfsmenn greinst með kórónuveiruna. 30 starfsmenn og 11 sjúklingar þar fyrir utan eru í sóttkví.

„Ástæðan fyrir því að við þurfum að gera þetta hlé á þessari deild þar sem smitin voru er að eiginlega allir starfsmennirnir eru í sóttkví. Við þurfum að láta aðra starfsmenn vinna þar í staðinn og þá geta þeir ekki verið að sinna sínum störfum. Þar af leiðandi er starfsemin hérna í ákveðnum lamasessi,“ segir hann og bætir við að ákveðið hafi verið að taka enga áhættu.

Sömuleiðis hafi verið töluverður beygur í sjúklingahópnum sem Reykjalundur sinnir um að koma yfirhöfuð í meðferð af ótta við smit. Einnig sé það leiðinlegt fyrir fólk að mæta á staðinn þegar aðeins um hálft starf er í gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert