„Það er allt að gerast í þessum kosningum“

Ragnheiður Elín Árnadóttir er stjórnarmaður í Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu og áhugakona …
Ragnheiður Elín Árnadóttir er stjórnarmaður í Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu og áhugakona um bandarísk stjórnmál. Árni Sæberg

Ragnheiður Elín Árnadóttir, stjórnarmaður í Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu og fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist spennt yfir forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fram fara eftir rúma viku eða þriðjudaginn 3. nóvember. 

Ragnheiður Elín segist vera forfallinn áhugamaður um bandarísk stjórnmál, hafandi búið þar í mörg ár og lært þar. AMÍS mun fjalla um væntanlegar forsetakosningar vestanhafs á morgunfundi á miðvikudaginn.

„Ég er nördinn sem vaki eftir öllum kappræðum. Það er eftirvænting og líka áhyggjur [...] mér er ekki alveg sama hvernig þetta fer og hvernig þetta spilast í framhaldinu,“ segir Ragnheiður í samtalið við mbl.is.

Þá vitnar Ragnheiður í kollega og fyrrverandi bandarískan ráðherra, Madeleine Albright, og segist vera bjartsýnismanneskja með miklar áhyggjur.

„Ég hef áhyggjur af ástandinu í samfélaginu, það er mikil sundrung. Maður hefur áhyggjur af því að sama hvernig þetta fer verði erfitt að koma Bandaríkjunum í lag.“

Halda morgunfund með sérfræðingum 

Amerísk-íslenska viðskiptaráðið hefur boðað til morgunfundar á miðvikudag um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Fundinum verður streymt og munu Silja Bára Ómarsdóttir prófessor og Friðjón Friðjónsson almannatengill „rýna stöðuna, framboðin tvö, frambjóðendurna, áhrif á bandarískt samfélag og ekki síst forystuhlutverk Bandaríkjanna í alþjóðasamfélaginu,“ eins og segir í fundaboði. 

Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins, segir þau  hafa reynt að halda upp á dag Leifs Eiríkssonar, 9. október ár hvert, með því að fjalla um stjórnmál. Vegna ástandsins hafi sú umfjöllun frestast en nú hafi verið boðað til netfundar þar sem framundan eru forsetakosningar í Bandaríkjunum, en kosningarnar fara fram 3. nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert