Vegnar almennt betur í framhaldsskóla

Framhaldsskólanemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Framhaldsskólanemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innflytjendum sem flytjast hingað til lands fyrir sjö ára aldur vegnar almennt betur í framhaldsskóla ef litið er til brottfalls en innflytjendum sem flytjast til landsins eftir þann aldur. Brottfall á meðal fyrrnefnda hópsins er svipað og á meðal allra nýnema á framhaldsskólastigi haustin 2012 og 2015.

„Brautskráningarhlutfall (þ.e. hlutfall nýnema sem hafa útskrifast) allra nýnema haustið 2015 var 60,0% fjórum árum eftir upphaf náms. Á meðal innflytjenda, sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur, var hlutfallið 57,8% og 50,0% á meðal annarrar kynslóðar innflytjenda. Innflytjendur, sem fluttust til landsins sjö ára eða eldri, standa mun verr að vígi en 32,0% þeirra höfðu brautskráðst. Af þeim sem ekki teljast til innflytjenda höfðu 62,1% nýnema brautskráðst innan fjögurra ára,“ segir í samantekt Hagstofunnar um málið en Hagstofan birtir upplýsingar af þessum toga nú í fyrsta sinn. 

Miklar sveiflur vegna fárra innflytjenda í starfsnámi

Ef litið er á nýnema í starfsnámi haustið 2015 höfðu 40,3% þeirra brautskráðst innan fjögurra ára.

„Hlutfallið var hærra á meðal innflytjenda en 44,4% þeirra sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur höfðu brautskráðst og 43,0% þeirra sem voru sjö ára eða eldri við flutning til landsins. Hins vegar var brautskráningarhlutfall innflytjenda lægra en allra nýnema úr bóknámi, sérstaklega innflytjenda sem voru sjö ára eða eldri við flutning til Íslands.“

Eingöngu 44 nýnemar haustið 2015 tilheyrðu annarri kynslóð innflytjenda og 45 voru innflytjendur sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur.

„Því má líta svo á að niðurstöður gefi vísbendingar um stöðu mála þar sem hver einstaklingur vegur þungt í tölunum og sveiflur í hlutfallstölum því miklar,“ segir í samantektinni. 

mbl.is