Málskostnaður 15 sinnum hærri en krafan

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur

Mál garðyrkjufyrirtækisins Garðlistar gegn húsfélagi við Tjarnarból upp á 48.662 krónur endaði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Varð niðurstaðan sú að Garðlist tapaði málinu og þarf að greiða 600 þúsund króna málskostnað auk virðisaukaskatts. Heildarfjárhæðin er því 744 þúsund krónur. 

Er málskostnaður með virðisaukaskatti rúmlega 15 sinnum hærri en krafan sem gerð var. 

Málsatvik eru þau að Garðlist og húsfélagið Tjarnarbóli 14 gerðu árið 2015 með sér samning um að Garðlist myndi sjá um slátt á grasflöt á tveggja vikna fresti umhverfis húsið á sumrin. Samningurinn var ótímabundinn og uppsegjanlegur af beggja hálfu hvenær sem var.

Segjast hafa boðið málamiðlun 

Fram kemur í dómnum sem féll 20. október sl. að húsfélagið hafi af og til kvartað undan þjónustunni en viðskiptasambandið hélt þó áfram. Vorið 2019 segist Garðlist hafa sent tilkynningu um tölvupóst um fyrirhugaðan slátt sumarið 2019 en húsfélagið hafnar því að hann hafi borist. Fyrir vikið hafi það litið svo á að ekki yrði af frekari þjónustu.

Hinn 27. maí sendi Garðlist reikning fyrir fulla þjónustu vegna sláttar í tvö skipti án þess að fram kæmi á reikningi hvenær slátturinn hafi farið fram. Nemur upphæðin 48.662 krónum. Húsfélagið hafnaði hins vegar greiðslunni þar sem þeir segja að þjónustan hafi ekki verið veitt eða hún gagnslaus. Í úrskurði segir að húsfélagið hafi lagt til málamiðlum um að greiða helming upphæðarinnar eftir að ágreiningur kom upp um hvort þjónustan hafi verið veitt eður ei.

Grassláttur
Grassláttur Ernir Eyjólfsson

Í niðurstöðu er rakið að húsfélagið telji að engin þjónusta hafi verið veitt eða hún verið gagnslaus. Garðlist segist hins vegar hafa sent tölvupóst um að þjónustan hafi verið veitt daginn eftir hvorn slátt eða 7. og 20. maí. Í annað skiptið kannist tveir íbúar við það að hafa séð sláttumenn frá fyrirtækinu en alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við sláttinn. Ekki verði séð af gögnum málsins að boðist hafi verið til lagfæringar á slættinum.

Með því hafi Garðlist fyrirgert rétti sínum til að fá reikninginn greiddan. Er niðurstaða dómsins sú að greiða Tjarnarbóli 14 600 þúsund krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts. Er þá óátalinn lögmannskostnaður Garðlistar sem stefnanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert