Aukagreiðslur skýra hækkun launavísitölu

Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli ágúst og september samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að hækkun vísitölunnar nú megi að mestu rekja til meiri aukagreiðslna, eins og álags-, bónus- og vaktagreiðslna. Vakin er athygli á þessu í Hagsjá Landsbankans.

Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,7% sem er meiri ársbreyting en hefur verið síðustu tvo mánuði.

Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en hefur verið vel ofan við 6% allt frá því í apríl. Almennar hækkanir launa samkvæmt kjarasamningum verða næst í janúar 2021 þannig að reikna má með að launaþróun verði með álíka rólegum hætti fram að því.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,5% milli septembermánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 6,7% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára er enn töluverð, eða 3,2%.

Opinberi geirinn leiðandi um þessar mundir

„Kaupmáttur launa heldur því áfram að vera mjög mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir aukna verðbólgu. Kaupmáttarvísitala hefur aðeins sigið síðustu mánuði og er kaupmáttur launa nú 0,6% minni en í apríl þegar hann var hæstur.

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá júlí 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,9% á þessum tíma og um 7,7% á þeim opinbera, 7,4% hjá ríkinu og 8,1% hjá sveitarfélögunum. Mæld launavísitala hækkaði um 6,3% á sama tíma.

Því virðist sem opinberi markaðurinn sé leiðandi í launabreytingum um þessar mundir, en sé litið yfir aðeins lengra tímabil má sjá að laun á almenna markaðnum hafa hækkað meira.

Af starfsstéttum á almenna markaðnum hækkuðu laun verkafólks mest milli júlí 2019 og 2020, um 8,1%. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu næstmest, um 7,3%. Laun stjórnenda hækkuðu minnst á þessu tímabili, eða um 3,1%. Launavísitalan hækkaði um 6,3% á þessu tímabili þannig að laun verkafólks hafa hækkað mun meira en meðaltalið og laun stjórnenda verulega minna.

Meðal atvinnugreina hækkuðu laun mest í veitustarfsemi á milli júlí 2019 og 2020, um 9,8%, og minnst í byggingu og mannvirkjagerð, um 4,2%. Það lítur því út fyrir að minni umsvif í byggingastarfsemi hafi minnkað launaþrýsting í þeim greinum.

Skráð atvinnuleysi án hlutabóta var 3,5% í september 2019. Það jókst um 5,5 prósentustig á einu ári og var 9% nú í september. Hlutfall starfandi fólks af vinnuafli minnkaði hins vegar um 1,3 prósentustig á sama tíma, úr 77,3% í 76%. Atvinnuþátttaka minnkaði um 0,9% á þessu tímabili, úr 80,1% í 79,2%. Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 6,7% og kaupmáttur launa um 3,2%.

Þetta er mjög óvenjuleg staða sé miðað við reynslu okkar af fyrri samdráttarskeiðum þar sem ávallt hefur verið lögð áhersla á að vernda hátt atvinnustig og kaupmáttur launa hefur jafnan fallið vegna mikillar verðbólgu. Nú er raunin hins vegar sú að áfallið kemur fyrst og fremst niður á atvinnustiginu og atvinnuleysi er nú þegar komið í sögulegar hæðir í upphafi kreppunnar.

Óvissan er mikil í hagkerfinu, en margt bendir til þess að atvinnuleysi eigi eftir að aukast og verða langvinnt. Það er hins vegar ljóst að laun munu hækka samkvæmt kjarasamningum í upphafi næsta árs og haldi verðlagsþróun áfram með svipuðum hætti má búast við áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Þessi staða er algerlega ný í íslenskri hagsögu og svo virðist sem langvarandi sérstaða okkar hvað atvinnustig varðar sé á undanhaldi,“ segir enn fremur í Hagsjá Landsbankans en hana má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert