Dæmd fyrir skilasvik og peningaþvætti

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Kona var nýverið dæmd í átján mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundið, fyrir skilasvik og peningaþvætti í Héraðsdómi Reykjaness.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að konan hafi verið ákærð fyrir skilasvik eftir að bú hennar var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2016. Að hafa þar í tvígang komið því til leiðar að hún fékk úthlutað í reiðufé arfshlutum úr dánarbúi móður sinnar, sem ákærða hafði átt kröfu til frá því einkaskiptum dánarbúsins lauk í mars 2016 þar til bú hennar var tekið til gjaldþrotaskipta, jafnvirði ríflega 125 milljóna króna samanlagt.

Jafnframt að hafa ekki skilað til þrotabúsins um það bil 22.000 bandaríkjadölum sem hún hafði sjálf upplýst um að eiga í bandarískum banka. Hún var einnig ákærð fyrir peningaþvætti tengt þessum undanskotum.

Konan, sem hefur ekki áður sætt refsingu, játaði brot sín en í dómi héraðsdóms segir að brot hennar lúti að umtalsverðum fjárhæðum og eins og brotunum er lýst í ákæru virðist hún hafa haft einbeittan vilja til þess að koma umræddum verðmætum undan kröfuhöfum sínum eftir að bú hennar var tekið til gjaldþrotaskipta. Konan hafi ekki upplýst hvað varð um þá fjármuni, sem ákæran lýtur að, umfram það að þeir hafi verið notaðir í eigin framfærslu.

mbl.is