Eldamennska talin vera orsökin

Slökkviliðsmenn á vettvangi í gærkvöld.
Slökkviliðsmenn á vettvangi í gærkvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Grunur er um að upptök eldsvoða sem varð í Rimahverfi um áttaleytið í gærkvöld megi rekja til eldamennsku. Kviknaði eldur líkast til út frá potti, að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu er nokkuð ljóst að um altjón var að ræða en vel gekk að ráða niðurlögum eldsins, sem upp kom laust eftir átta í gærkvöldi. Slökkvistarf stóð yfir þar til klukkan tíu í gærkvöldi. Einungis tók um tuttugu mínútur að slökkva eldinn en því næst var húsið reykræst.

Húsráðandi var fluttur á slysadeild til skoðunar í kjölfar eldsvoðans en ekki fást upplýsingar um líðan hans að svo stöddu.

Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað á vettvang, alls 21, en að starfinu loknu tekur við rannsókn á tildrögum eldsvoðans og sérfræðimat á tjóni. Lauk útkallinu klukkan 21.58.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert