Fallist á endurupptöku í BK-44-máli

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurupptökunefnd hefur fallist á beiðni Magnúsar Arnars Arngrímssonar, fyrrverandi starfsmanns Glitnis, um endurupptöku tveggja ára fangelsisdóms, sem hann hlaut fyrir umboðssvik, í Hæstarétti árið 2015. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Forsendur endurupptöku málsins eru fjárhagslegir hagsmunir Markúsar Sigurbjörnssonar, eins dómara málsins í Hæstarétti, en Markús tapaði tæplega átta milljónum á falli Glitnis árið 2008, að því er segir í Fréttablaðinu.

Umfjöllun mbl.is um dóminn á sínum tíma.

Í niðurstöðu nefndarinnar, samkvæmt Fréttablaðinu, segir að í ljósi þeirra fjármuna sem dómarinn tapaði hafi Magnús mátt hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni dómstólsins með réttu í efa.

Í mál­inu voru fjórir ákærðir fyr­ir umboðssvik, markaðsmis­notk­un og brot á lög­um um árs­reikn­inga. Menn­irn­ir eru Birk­ir Krist­ins­son, sem var starfsmaður einka­bankaþjón­ustu Glitn­is, Jó­hann­es Bald­urs­son, sem var fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta, Elm­ar Svavars­son, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arn­ar Arn­gríms­son, sem var fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs.

Ákær­an kom til vegna 3,8 millj­arða lán­veit­ingar bank­ans til fé­lags­ins BK-44 í nóv­em­ber 2007. Fé­lagið var í eigu Birk­is og voru Jó­hann­es, Magnús og Elm­ar ákærðir fyr­ir umboðssvik með því að veita fé­lag­inu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Birk­ir var svo ákærður fyr­ir hlut­deild í brot­inu. BK-44 seldi hlut­ina á ár­inu 2008 þegar gert var upp við fé­lagið nam tap Glitn­is tveim­ur millj­örðum króna.

Hæstirétt­ur mildaði dóm héraðsdóms í svo­kölluðu BK-44-máli. Birk­ir Krist­ins­son og Elm­ar Svavars­son voru dæmd­ir í fjög­urra ára fang­elsi, en þeir hlutu fimm ára dóm hvor í héraðsdómi. Dóm­ur yfir Jó­hann­esi Bald­urs­syni var mildaður úr fimm árum í þrjú ár og þá var dóm­ur yfir Magnúsi Arn­ari Arn­gríms­syni mildaður úr fjór­um árum í tvö ár.

mbl.is