Rökuðu hár af manni – brotið var fyrnt

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag fimm manna hóp sem ákærður var fyrir ólögmæta nauðung og húsbrot en fólkið ruddist inn á heimili manns. Þar var manninum haldið niðri á meðan hárið var rakað af honum og hluti af augabrúnum með hrossaklippum og rafmagnsrakvél.

Enn fremur er fólkið ákært fyrir kynferðislega áreitni með því að hafa haldið manninum niðri, dregið buxurnar niður um hann, troðið rakvélinni milli rasskinna hans og skilið hana eftir í gangi.

Brotið var framið fyrir fjórum árum og taldi dómurinn það fyrnt en ákæra vegna þess var gefin út í fyrra.

Fyrir dómi sagði ákærða fólkið að ráðist hefði verið að manninum vegna þess að hann hefði brotið gegn 18 ára gamalli vinkonu þeirra. 

Maðurinn sem ráðist var á sagðist hafa eytt nótt með stúlkunni og það hefði farið illa í samstarfskonur og vinkonur hennar.

Nokkrum dögum síðar var hringt í manninn þar sem fólkið lýsti óánægju með hann. Í því samtali játaði hann að hafa verið með stúlkunni. Allt hafi verið í góðu milli þeirra og með samþykki beggja.

Að næturlagi hálfum mánuði síðar vaknaði maðurinn við að ráðist var á hann, eins og áður er lýst. Hann hafi í fyrstu streist á móti en fann fljótlega að hann myndi ekki ráða við þau öll.

Ákærðu neituðu sök en dómurinn taldi sannað að í það minnsta fjögur þeirra hefðu ráðist á manninn og rakað af honum hárið. Hins vegar fyrnist slíkt brot á tveimur árum. Hópurinn var sýknaður fyrir meint kynferðisbrot en dómurinn taldi það ósannað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert