Sorglegt mál sem varðar heilsu kvenna

Sævar Þór Jónsson lögmaður.
Sævar Þór Jónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmaður kvenna, sem telja sig hafa fengið ranga niðurstöðu úr legháls- og brjóstaskimun hjá Krabbameinsfélagi Íslands, hefur krafist skaðabóta fyrir hönd þriggja kvenna og væntir þess að krefjast einnig skaðabóta fyrir hönd fjórðu konunnar. Hann telur „galið“ að félagasamtök sem lítið eftirlit sé með hafi sinnt svo viðkvæmri heilbrigðisþjónustu í áraraðir og segir málið sorglegt. 

Lögmaðurinn, Sævar Þór Jónsson, segir að allt í allt muni 10 mál vera tilkynnt til embættis landlæknis. Nú þegar hafa átta mál verið send þangað til frekari rannsóknar.

„Ég get auðvitað ekki fullyrt eitt eða neitt í þessu. Athugun landlæknis og fleiri aðila verður að leiða það í ljós en ég held að það séu allir sammála því, meira að segja landlæknisembættið, að það hafa átt sér stað þarna mistök,“ segir Sævar Þór í samtali við mbl.is. 

Níu sentimetra æxli og meinið búið að dreifa sér

Eitt af skaðabótamálunum þremur snertir konu sem er látin og standa aðstandendur hennar því að baki málinu. 

„Í hinum tilvikunum er um að ræða einstaklinga sem eru á lífi, annar þeirra er langt leiddur af afleiðingum krabbameinsins,“ segir Sævar. 

Hvað varðar brjóstaskimunina þá er um að ræða konur sem fóru í krabbameinsskoðun hjá Krabbameinsfélagi Íslands og talið er að þær hafi fengið rangar niðurstöður. Í tilviki einnar konunnar fannst níu sentimetra æxli í brjósti hennar, nokkru eftir að hún fór í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu.

„[Krabbameinið] er búið að breiða úr sér. Það er ung kona og það er afskaplega sorglegt mál eins og öll þessi mál,“ segir Sævar. 

Aðspurður segir hann að þess megi vænta að skaðabótakröfurnar sem lagðar hafa verið fram séu háar. Hann geti þó ekki greint frá því á þessu stigi hversu háar þær séu. 

Segir misbrest í verkferlum

Spurður hvort rangar niðurstöður í brjóstaskimun gefi til kynna að pottur sé brotinn á fleiri stöðum en einum innan Krabbameinsfélagsins segir Sævar:

„Þetta er ekki bara afstaða mín. Þetta er afstaða lækna og þeirra sem hafa komið fram og rætt þessi mál fyrir utan mig. Sérfæðingar og sérfræðilæknar hafa talað fyrir því að ferlið hjá Krabbameinsfélaginu sé ekki í lagi, það sé einhver misbrestur í verkferlum eða það skorti ákveðna verkferla og eftirlit. Það er þá ekki bara bundið við einhverja ákveðna týpu af leit. Það hlýtur að eiga við um allt sem þau gera þarna innanhúss.“

Sævar furðar sig á því að leitin sé í höndum félagasamtaka sem lítið eftirlit sé með. 

„Mér finnst galið, eftir á að hyggja, [...] að við setjum þetta í hendur aðila sem er lítið sem ekkert eftirlit með.“

„Það er engu að fagna í þessu“

Bæði brjósta- og leghálsskimun færist til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri um áramótin.

Fagnarðu því að skimunin sé á leið til LSH og SHA?

„Mér finnst þetta vera sorglegt mál vegna þess að þetta varðar heilsu kvenna. Í þessum málum sem eru hérna til umfjöllunar þá erum við að tala um einstaklinga sem hafa fallið frá sem eru mæður, eiginkonur, dætur. [...] Það er engu að fagna í þessu, þetta er ekki fagnaðarefni. Það er betra að þetta sé komið til betri vegar en það er samt búið að eiga sér stað tjón og hverju svarar maður slíku fólki sem hefur orðið fyrir slíku? Það hjálpar ekki öllum að þetta sé komið til betri vegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert