„Við hræðumst mjög jólin“

Fjölskylduhjálp Íslands.
Fjölskylduhjálp Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 400 fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu fá mataraðstoð frá Fjölskylduhjálp í dag og á morgun. 

Ásgerður Jóna Flosadóttir, starfandi formaður Fjölskylduhjálpar, segir að færri hafi komist að í úthlutuninni en vildu. 

„Þetta eru núna 400 fjölskyldur sem eru að fá hjá okkur mat í dag og á morgun. Við erum búin að vera að úthluta allan Covid-tímann. Fólk sækir um á fjölskylduhjálp.is og síðan fær það skilaboð um hvaða dag viðkomandi kemur og klukkan hvað, allir með grímur og spritt,“ segir Ásgerður. 

„Það voru miklu fleiri sem þurftu aðstoð en við þurfum bara að fara eftir fjárhagslegri stöðu Fjölskylduhjálpar. Við erum með þrjár máltíðir fyrir fólk núna, bjúgu, pizzu og bleikju. Þetta fá allir í dag fyrir utan margt annað.“

Sárt að þurfa að vísa fólki frá 

Nokkuð fleiri fengu úthlutað mataraðstoð Fjölskylduhjálpar í september. 

„Við vorum með 700 heimili í september og 888 heimili í Reykjanesbæ. Þetta fer bara eftir því hvað við eigum og hvað við getum keypt. Það er mjög sárt að þurfa að loka fyrir en það verður bara fullt. Við verðum svo með einhverja neyðaraðstoð fram eftir viku eftir því hvað við eigum. Þetta er alltaf að verða erfiðara og erfiðara og í rauninni þyrftum við að vera hérna að úthluta alla daga,“ segir Ásgerður. 

Spurð hvort spurn eftir mataraðstoð hafi aukist í heimsfaraldri kórónuveirunnar segir Ásgerður:

„Guð minn góður já. Um helmingur eru innflytjendur, margir hafa unnið hér og skapað verðmæti í þjóðfélaginu á meðan aðrir eru komnir með dvalarleyfi og eru atvinnulausir. Við þyrftum að geta hjálpað svona 2.500 til 3.000 heimilum í mánuði. Við hræðumst mjög jólin. Við erum að vona að Smáralind og Kringlan verði alltaf með jólatré, það breytti miklu fyrir fólk að fá hjálp með jólagjafir,“ segir Ásgerður.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert