6 af hverjum 10 sviðslistakonum áreittar

#metoo byltingin kom af stað umræðum um kýnferðislega og kynbundna …
#metoo byltingin kom af stað umræðum um kýnferðislega og kynbundna áreitni víða um samfélagið. mbl.is/Eggert

Kynbundin og kynferðisleg áreitni er rótgróið vandamál innan sviðslista á Íslandi, samkvæmt nýrri skýrslu Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK). Þar kemur meðal annars fram að sex af hverjum tíu konum innan sviðslista verða fyrir kynferðislegri áreitni og fjórir af hverjum tíu körlum. 

„Niðurstöður könnunarinnar sýna að 52% sviðslistafólks hefur örugglega eða líklega einhvern tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni tengslum við nám sitt og störf í sviðslistum,“ segir í samantekt skýrslunnar. 

„Kynferðislega áreitnin er líkamleg, orðbundin og táknræn og sú orðbundna algengust.“

Bæði kynin gerendur 

Skýrslan ber heitið „Einelti og áreitni í starfsumhverfi sviðslista“. Gagna var aflað vorið 2019 með rafrænni spurningakönnun meðal félaga í fagfélögum sviðslistafólks á Íslandi. 52% þátttakenda svöruðu spurningu um reynslu af kynferðislegri áreitni í tengslum við nám sitt og störf í sviðslistum játandi og 46% samsvarandi spurningu um kynbundna áreitni. 

Samkvæmt niðurstöðum hennar eru sviðslistakonur líklegri en starfsbræður þeirra til að verða fyrir kynbundinni áreitni. Bæði kynin eru gerendur í þessum málum en meirihluti þeirra er karlkyns.

Reynslan hefur afleiðingar

Um þrír af hverjum tíu þátttakendum sögðust hafa upplifað einelti í tengslum við störf sín eða nám í sviðslistum. Afleiðingar eineltis og áreitni innan sviðslista er vanlíðan í starfi en einnig má greina löngun á meðal þeirra sem urðu fyrir slíku til að hætta í vinnunni og öryggisleysi utan vinnunnar. 

„Niðurstöðurnar sýna að fjórir af hverjum tíu þolendum kynferðislegrar áreitni, helmingur þolenda kynbundinnar áreitni og tæplega níu af hverjum tíu þolendum eineltis sögðu að reynslan hefði haft einhverjar afleiðingar fyrir sig,“ segir í skýrslunni. 

Enn umfangsmikið vandamál

Um er að ræða fyrstu rannsóknina á algengi kynferðislegrar áreitni, kynbundinni áreitni og eineltis innan sviðslista. 

„Niðurstöðurnar benda til þess að áreitni og einelti hafi verið og sé enn umfangsmikið vandamál innan sviðslista á Íslandi og að skýringa sé ekki síður að leita í menningu sviðslistanna en hjá einstaklingum. Ennfremur er nokkuð ljóst að það skortir fræðslu, formlega ferla og úrræði fyrir þolendur,“ segir skýrslunni. 

Skýrslan er aðgengileg hér en hún verður kynnt rafrænt í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom í dag klukkan 15.00. Hér má nálgast kynninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert