Austanbelgingur og umhleypingar

Kort/Veðurstofa Íslands

Austanbelgingur í dag og áfram stormur syðst á landinu, þar er gul viðvörun í gildi. Léttskýjað suðvestan til, en dálítil rigning eða slydda norðan- og austanlands, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Hvöss austanátt og víða rigning á morgun, einkum um landið suðaustanvert. Síðdegis lægir nokkuð, fyrst sunnan heiða. Hiti 4 til 10 stig. Um helgina er útlit fyrir umhleypingar með vætusömu og fremur mildu veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. 

Í dag er austan- og norðaustanhvassviðri eða -stormur syðst á landinu fram á fimmtudagsmorgun og má búast við snörpum vindhviðum við fjöll, t.d. undir Eyjafjöllum og í Öræfum. 

Gul viðvörun hefur verið í gildi síðan í gærmorgun á Suðurlandi en sú viðvörun á að renna skeið sitt á enda klukkan 8. Ný viðvörun hefur síðan verið gefin út og tekur hún gildi klukkan 20 í kvöld og gildir til klukkan 11 í fyrramálið. „Austan 15-25 m/s, hvassast austan til. Búist er við snörpum vindhviðum við fjöll, yfir 35 m/s, t.d. undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli. Þetta getur skapað varasöm akstursskilyrði, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Veðurspáin fyrir næstu daga

Austan og norðaustan 10-18 m/s, en 18-23 syðst. Víða léttskýjað á S- og V-landi í dag, annars slydda eða rigning með köflum, einkum A-lands. Hiti 1 til 8 stig, mildast við S-ströndina.

Austan 15-23 og rigning með köflum á morgun, talsverð um tíma á SA-landi og Austfjörðum. Snýst í suðaustan 8-15 síðdegis, fyrst S-lands. Heldur hlýnandi.

Á fimmtudag:
Austan 15-23 m/s og rigning með köflum en talsverð rigning á SA- og A-landi. Snýst í talsvert hægari suðaustanátt síðdegis, fyrst S-lands. Hiti 4 til 10 stig.

Á föstudag:
Sunnan og suðaustan 8-13 og rigning með köflum en styttir upp síðdegis á N- og NA-landi. Hiti 2 til 8 stig.

Á laugardag:
Suðlæg átt og dálítil væta S- og V-til í fyrstu en vaxandi norðaustanátt með rigningu eða slyddu síðdegis. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:
Breytileg átt, rigning með köflum og milt veður.

Á mánudag:
Suðvestanátt og skúrir eða slydduél, en bjart veður A-lands. Heldur kólnandi.

Á þriðjudag:
Líklega vestlæg átt og úrkomulítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert