„Ekki verið að fara að dæma fólk í fangelsi“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir að fólk verði ekki sótt til saka fyrir brot á sóttvarnarlögum. Fyrst og fremst verði sektarboðum beitt. Þá á hann ekki von á því að lögregla muni beita sér til að kanna möguleg brot á sóttvarnarlögum á Landakotsspítala.  

„Það er ekki verið að fara að dæma fólk í fangelsi fyrir brot á sóttvarnarlögum,“ segir Víðir.  

Eins og fram hefur komið kom upp hópsmit á Landakotsspítala en um 90 smit eru tengd smitum sem komu upp á spítalanum. Víðir segist síður eiga von á því að viðurlögum verði beitt í því tilfelli. „Það þarf að koma vera ásetningur eða stórkostlegt gáleysi sem leiðir til þess að lögregla rannsakar mál,“ segir Víðir. 

Starfsfólk Landakotsspítala við sótthreinsistörf um síðustu helgi.
Starfsfólk Landakotsspítala við sótthreinsistörf um síðustu helgi. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Sektir eru verkfæri lögreglu 

Víðir segir að almennt sé fremur snúið að vinna eftir sóttvarnarlögum. Horft sé til ákvörðunar ríkissaksóknara sem veitt hefur sektarheimildir fyrir brot á samgöngubanni, brot á einangrun og sóttkví og brot á grímuskyldu. „Þetta eru verkfæri lögreglu við brotum,“ segir Víðir. Hann bendir þó á að sóttvarnarlæknir hafi heimild til þess að færa fólk nauðugt í einangrun. „En það er bara einangrun ekki fangelsi,“ segir Víðir.  

Til áréttingar þá er mál á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni þar sem 22 af 25 skipverjum smituðust rannsakað á grunni sjólaga. 

Getur lent á sakarvottorði 

„Það er þó þannig að ef að sektin er nægilega há, þá getur það farið á sakarvottorð viðkomandi,“ segir hann. Hámarks sekt fyrir brot á lögunum er 250 þúsund krónur hjá einstaklingum en 500 þúsund krónur hjá fyrirtækjum.   

Að sögn Víðis hefur minna borið á ábendingum um að fólk og fyrirtæki séu ekki að fara eftir settum reglum. Hins vegar sé nokkuð um tilkynningar um að fólk sinni ekki sóttkví. „Það kemur líka oft fyrir að við höfum afskipti af fólki út af öðrum málum og þá kemur í ljós að það á að vera í sóttkví,“ segir Víðir.  

Að sögn Víðis eru ýmsar ástæður sem liggja að baki því að fólk sinnir ekki sóttkví. Jafnvel eru dæmi um að fólk telji sig búið í sóttkví. „Sumir mæta ekki í seinni sýnatökuna og eru því enn í sóttkví án þess að átta sig á því. Svo eru enn aðrir sem ætla sér alls ekkert að virða sóttkví,“ segir hann. 

Fjölmargir eru í sóttkví og einangrun. Slíkt getur reynt á …
Fjölmargir eru í sóttkví og einangrun. Slíkt getur reynt á þolrifin. Ásdís Ásgeirsdóttir

Vonast eftir rannsóknarskýrslu 

Hann telur mikilvægt að þegar samfélagið er búið að fara í gegnum „þennan skafl,“ þá þurfi að rýna í málin til að læra af þeim. „Það er erfitt að gera það á meðan allir eru á hlaupum. Það þarf að bíða eftir logni til að geta skoðað það. En málin þurfa að vera í ákveðnum farvegi svo lögreglan komi  að þeim,“ segir Víðir. 

Ættum við kannski að skrifa rannsóknarskýrslu Covid-tímanna? 

„Ég vona það. Það hafa skrifaðar rannsóknarskýrslur af minna tilefni. Ég hygg að þegar við erum komin í gegnum þennan skafl þá muni menn fara í gegnum þetta. En það er ekkert vit í því að fara í rannsóknir á þessum málum á meðan við erum í miðju stríðinu,“ segir Víðir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert