Helmingur karla opnað klámsíður síðustu 3 mánuði

Heimsóknir á klámsíður jukust frá 2016 til 2020.
Heimsóknir á klámsíður jukust frá 2016 til 2020. mbl.is/ThinkstockPhotos

Heimsóknir á klámsíður á netinu jukust á milli áranna 2016 og 2020, einkum meðal yngri karla. Um helmingur karla sagðist hafa opnað klámsíður undanfarna þrjá mánuði en 14% kvenna, samkvæmt niðurstöðum úr þremur þjóðmálakönnunum sem Félagsvísindastofnun safnaði saman árin 2016, 2018 og 2020.

Fjórðungur svarenda sagðist hafa heimsótt klámsíður síðustu þrjá mánuði 2016 og 2018 en tæplega þriðjungur á þessu ári.

Me-Too hafði líklega áhrif

Konum sem sögðust hafa heimsótt slíkar síður fækkaði mjög milli 2016 og 2018 en í ár sagðist svipaður fjöldi kvenna hafa gert það og árið 2016. Líklegt má telja að umfjöllun um kynferðislega áreitni í kjölfar Me-Too-hreyfingarinnar hafi haft áhrif á að færri konur sögðust hafa opnað síður af því tagi árið 2018 en bæði 2016 og 2020, að því er segir í niðurstöðunum.

Frekari kynning á niðurstöðunum fer fram á rafrænni málstofu um afbrot og löggæslu í Þjóðarspegli Háskóla Íslands klukkan 9 á föstudagsmorgun. Þar munu Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, og Jónasi Orra Jónassyni flytja erindi um netglæpi.

Helgi segir í samtali við mbl.is að þetta hlutfall karla varðandi klámsíður sé mjög hátt en tekur fram að fyrst og fremst séu þetta ungir karlar. Hann segir kynslóðamun vera ríkjandi í samfélaginu varðandi marga hluti, ekki bara alþjóðlegar klámsíður heldur einnig samfélagsmiðla og notkun á fíkniefnum, svo einhver dæmi séu tekin. Hann líkir breyttri afstöðu ungra karla til ýmissa mála við það þegar þeir voru í meirihluta þeirra sem vildu leyfa bjórinn hérlendis. Einnig segir hann yngra fólk, sér í lagi yngri karla mun frjálslyndari en eldri kynslóðin, sem haldi sig meira til baka, kannski vegna ábyrgðartilfinningu.

Helgi segir kynslóðamuninn því vera mikinn og áhorf á klámsíður hverfi nánast eftir 50 til 60 ára aldur. Kynjamunurinn er einnig mjög mikill. Að einhverju leyti fara ungar konur á þessar síður en mjög lítið, að sögn Helga. Að minnsta kosti séu þær mun færri sem vilja viðurkenna það.

Hann bætir við: „Félags- og menningarleg mótun kynjanna er ólík. Körlum leyfist almennt meira og eru áhættusæknari en konur sem eru varfærnari en karlar. Þetta kemur fram í hegðan eins og meira klámáhorfi og meiri neyslu áfengis- og vímuefna en líka í frjálslyndari afstöðu til mála eins og afnáms refsinga fyrir vörslu fíkniefna. Einnig voru þeir alltaf hliðhollari bjórnum en konur á sinni tíð svo dæmi sé tekið.“

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði. mbl.is/Árni Sæberg

Flestir greindu frá meiðyrðum og fjársvikum

Þátttakendur voru einnig spurðir hvort þeir hefðu orðið þolendur einhverra eftirtalinna netbrota: Meiðyrði eða rógburði, hótun um ofbeldi, persónuupplýsingar verið misnotaðar, t.d. kreditkortaupplýsingar eða kennitala, kynferðislegri áreitni, fjárkúgun, svik í viðskiptum, hvort einhver hafi hótað að dreifa eða birta myndir/efni um sig án leyfis og að lokum hvort einhver hafi birt eða dreift myndum án samþykkis.

Í niðurstöðunum kemur fram að heildarfjöldi þeirra sem sagðist hafa orðið þolandi netbrots óx mjög eftir 2016 til 2018 en svipaður fjöldi greindi frá netbroti 2018 og 2020. 19 prósent svarenda árið 2018 og 2020 sögðust þolendur netglæpa í stað 13% árið 2016.

Aftur á móti greindu þeir sem sögðust hafa orðið þolendur netbrota 2020 frá fleiri brotum en þolendur gerðu árin 2016 og 2018. Flestir greindu frá meiðyrðum og fjársvikum í öllum mælingunum þremur. Þolendur netglæpa eru flestir í yngsta aldurshópnum 18 til 29 ára en ekki er mikill munur milli kynjanna.

mbl.is/Hanna

10% kvenna áreittar á netinu 

Í niðurstöðunum kemur fram að talsvert fleiri segjast þolendur kynferðislegrar áreitni árin 2018 og 2020 en 2016. Ætla má að allt að 10 prósent kvenna hafi orðið fyrir áreitni af því tagi á síðustu þremur árum einkum yngri konur. Líklegt má telja að Me-Too-hreyfingin hafi haft áhrif á fjölgun þeirra sem segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á netinu.

Aukin meðvitund um brot af því tagi óx að öllum líkindum með Me-Too bylgjunni 2017 þar sem fjöldi kvenna úr ólíkum starfsstéttum kom fram og greindi frá áreitni sem þær hafa orðið fyrir. Áreitni, áður hugsanlega túlkuð sem óþægileg eða jafnvel eins og hvert annað hundsbit, fékk í kjölfar Me-Too skarpari merkingu sem kynferðisleg áreitni. Þetta er þróun sem áhugavert væri að rannsaka frekar, segir í niðurstöðunum.

„Þegar menn eru að koma fram í kjölfar Me-Too stigu hundruð og jafnvel þúsundir kvenna fram sem höfðu orðið fyrir ýmiss konar kynferðislegri áreitni,“ segir Helgi, spurður út í þessar niðurstöður, og bætir við að kynferðisleg áreitni á netinu mælist fyrst og fremst á meðal kvenna.

Dregið umtalsvert úr ólögmætu niðurhali

Einnig segir í niðurstöðunum að dregið hefur úr ólögmætu niðurhali á höfundavörðu efni af netinu. Tæplega fjórðungur sagðist hafa gert það á síðustu þremur mánuðum í stað tæplega þriðjungs árið 2016. Líklegast hefur þessi breyting orðið vegna aukins aðgengis að lögmætum efnisveitum eins og Netflix og Spotify. Fyrst og fremst stundar yngra fólk ólöglegt niðurhal, að sögn Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert