Jafna sig ekki þó ferðamenn komi

Ferðamenn í Leifsstöð
Ferðamenn í Leifsstöð Eggert Jóhannesson

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, segir að ekki verði hægt að tala um að ferðaþjónustan verði búin að jafna sig þó áætlanir um svipaðan ferðamannafjölda og í fyrra náist árið 2023. Greinin muni sitja uppi með skuldsetningu sem komi til með að hamla nýsköpun og fjárfestingu. 

Nái svipuðum verðmætum árið 2023

„Þetta er alltaf spurning um viðmiðið og hvað er átt við þegar talað er um að ferðaþjónustan jafni sig. Hún mun að sjálfsögðu ekki jafna sig miðað við árið í fyrra á næsta ári. Slíkt væri fullmikil bjartsýni. Í okkar tilfelli erum við frekar að tala um það að ferðaþjónustan verði búin að ná inn svipuðum verðmætum um 2023,“ segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðamannaþjónustunnar. 

Vonast eftir milljón ferðamönnum á næsta ári 

Jóhannes segir að gjarnan sé horft til ferðamannafjölda þegar talað er um umfang ferðaþjónustunnar. Ferðamannafjöldinn var um tvær milljónir í fyrra. Greiningaraðilar tali um að á næsta ári geti komið hingað 800 þúsund til milljón ferðamenn. Þeir verði 1,5 milljónir 2021 og svo um 1,8 milljónir árið 2022 en nái ekki þeim fjölda sem var fyrir Covid-19 faraldurinn fyrr en 2023. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar Kristinn Magnússon

„En fyrirtækin sitja uppi með mjög mikla skuldsetningu og því ekki hægt að tala um að ferðaþjónustan verði búin að jafna sig þó ferðamannafjöldinn verði svipaður,“ segir Jóhannes. 

Hann bendir á að skuldsetning muni þýða minni nýsköpun og hægari vöxt til framtíðar. Það sé hins vegar vandi sem þurfi að takast á þegar þar að kemur. 

Bíða eftir frekari aðgerðum 

Ríkisstjórnin kynnti í dag að minni ferðaþjón­ustuaðilar, leiðsögu­menn og fleiri munu geta sótt um styrk vegna tekju­falls sem varð vegna COVID-19-heims­far­ald­urs­ins, sam­kvæmt nýju frum­varpi fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um tekju­falls­styrki. Er heildar umfangið metið á 3,5 milljarða króna. 

„Þetta skiptir miklu máli fyrir þessa litlu rekstaraðila. Eftir stendur að við bíðum enn eftir þeim 6 milljarða króna styrkjum sem voru kynntir þegar lífskjarasamningurinn var kynntur. Það verði lokunarstyrkir, styrkir til lítilla fyrirtækja og til fyrirtækja með með fleiri en þrjá starfsmenn. Það er þá aðgerð sem við eigum væntanlega eftir að sjá,“ segir Jóhannes. 

Hann bendir á það að eftir því sem fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustunni fara á hausinn þá muni greinin verða lengur að jafna sig með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert