Lögregla handsamaði vængbrotinn svan

Um miðjan dag í dag handsamaði lögreglan svan en hann reyndist vængbrotinn eftir að ekið hafði verið á hann. Svaninum var komið til dýralæknis til frekari aðhlynningar.

Nokkur mál er snúa að fíkniefnum hafa komið upp. Karl var handtekinn úti Granda vegna gruns um fíkniefnaakstur. Annar var handtekinn á Vesturlandsvegi í kvöld fyrir sömu sakir. Þá var karlmaður handtekinn vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna og fyrir brot á vopnalögum um kvöldmatarleytið. Hann hafði hníf í fórum sínum og er í vörslu lögreglu meðan á rannsókn málsins stendur, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var ekið á ungan dreng þar sem hann teymdi reiðhjól sitt eftir gangstétt í Dalsmára í Kópavogi á sjöunda tímanum. Lögregla kveðst vita hver ökumaður bílsins er en hefur ekki enn náð tali af honum. Drengurinn mun ekki hafa meiðst að sögn lögreglu.

Í tilkynningunni kemur fram að nokkuð hafi verið um aðstoðarbeiðnir til lögreglu seinnipartinn í dag og fram á kvöld, til að mynda vegna veikinda, ölvunarástands, grunsamlegra mannaferða og ónæðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert