„Ógeðfellt á allan hátt“

Heiðar Ingi Svans­son, formaður Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­anda (FÍBÚT).
Heiðar Ingi Svans­son, formaður Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­anda (FÍBÚT). mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við viljum veita þessari bók sem minnst brautargengi en leikreglurnar hafa verið skýrar varðandi birtingu í Bókatíðindum,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda. Vísar hann þar til bókarinnar The Hoax of the Twentieth Century: The Case Against the Presumed Extermination of European Jewry. 

Umrædd bók kom út árið 1976 en í henni er dregið í efa að helförin hafi átt sér stað í síðari heimsstyrjöldinni. Mikillar óánægju hefur gætt sökum útgáfunnar í fjölda landa, þar á meðal Bretlandi og Bandaríkjunum. Nú hefur bókin verið þýdd yfir á íslensku en ráðgert er að hún verði meðal bóka í jólabókaflóðinu í ár. 

Var sleginn yfir tilurð bókarinnar

Nú síðast birtist bókin í Bókatíðindum, en að sögn Heiðars Inga frétti hann fyrst af tilvist hennar í fyrrakvöld. Þá sé hann mjög andsnúinn útgáfu bókarinnar hér á landi. „Ég vissi af henni í fyrrakvöld og það litla sem ég hef séð er ógeðfellt á allan hátt. Ég hef bara ekki áhuga á því að kynna mér hana eða fara nánar ofan í efnistök á henni.“

Segir hann að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir birtingu umræddrar bókar í Bókatíðindinum. Tíðindin séu ekki ritskoðuð. „Þetta er opinn vettvangur og þau hafa ekki verið ritskoðuð. Tilgangurinn hefur verið að ná utan um sem flestar bækur. Þetta eru keyptar birtingar en ég skil vel hvaða tilfinningar hún vekur. Ég var sleginn þegar ég frétti af tilurð þessarar bókar,“ segir Heiðar, sem kveðst munu skoða hvort ritstýra þurfi Bókatíðindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert