Gengu lengra í sóttvörnum en samt komu upp 30 smit

Grímuskylda er innan sameiginlegra rýma í Ölduselsskóla og í matsal …
Grímuskylda er innan sameiginlegra rýma í Ölduselsskóla og í matsal er hanska- og grímuskylda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hafa 30 kórónuveirusmit greinst á meðal kennara og nemenda Ölduselsskóla. Á fimmta tug smita alls eru rakin til skólans og eru því afleidd smit. Skólastjóri telur að sóttvörnum hafi ekki verið ábótavant innan skólans en þar var gengið lengra í sóttvörnum en krafist er í reglugerð og tilmælum vegna faraldursins. 

23 nemendur eru smitaðir en þeir eru í öðrum, fimmta, sjötta, sjöunda og tíunda bekk. Þá eru sjö starfsmenn smitaðir. Einhverjir eru í sóttkví en það er ekki verulegur fjöldi. Flestir losnuðu úr á þriðjudag og var skólinn opnaður í gær. 

Grímuskylda í sameiginlegum rýmum og matsal

Grímuskylda er innan sameiginlegra rýma í Ölduselsskóla og í matsal er hanska- og grímuskylda. Spritt er víða og fjarlægðarmörk hafa verið virt í þeim tilvikum sem það er hægt en börn á grunnskólaaldri eru undanþegin reglugerð heilbrigðisráðherra sem t.a.m. felur í sér kröfu um tveggja metra fjarlægð á milli fólks. 

„Ég vona alla vega að þessar sóttvarnir sem við virðum hérna innanhúss hafi einmitt gert það að verkum að það hafi ekki fleiri smitast þótt það sé mjög leiðinlegt að það hafi verið þessi fjöldi. Við erum eiginlega viss um það að grímurnar, sprittið og þessar persónulegu smitvarnir hafi skipt máli,“ segir Elínrós Benediktsdóttir skólastjóri Ölduselsskóla. 

Óvitað er hvernig smitið barst inn í skólann. 

„Það er allt á huldu. Flestir starfsmenn sem vinna hér, kannski eins og flestir landsmenn, hitta engan og fara bara rétt í búðina. Við höfum gengið aðeins lengra en við höfum verið beðin um, til dæmis höfum við verið með grímu- og hanskaskyldu í matsal og grímuskyldu í sameiginlegum rýmum skólans, spritt alls staðar og höfum virt þessi fjarlægðarmörk svo við getum ekki séð hvernig þetta hefur getað komið inn,“ segir Elínrós. 

Herða á sóttvörnum

Nú hefur skólinn ákveðið að herða enn frekar á sóttvörnum. Þannig er t.d. horft á árganga sem heild og miðað að því að þeir blandist ekki saman. 

„Við höfum gert það með því t.d. að loka matsalnum tímabundið þar sem nemendur fá þá bara mat inn í heimastofur. Við höfum þá aðeins þurft að einfalda matarmál. Nemendur á unglingastigi fá að vera inni í frímínútum alla jafna. 8., 9. og 10. bekkur blandast sem sagt venjulega en við höfum ákveðið að það sé bara einn árgangur í salnum í einu á hverjum degi. Þau skiptast á dögum við að vera niðri í sal en annars en annars eru þau bara á sínu heimasvæði,“ segir Elínrós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert