Reistu brú með engu nema grjóti úr grenndinni

Brúarsmiðurinn Óskar Jónasson er að vonum sáttur með verkið.
Brúarsmiðurinn Óskar Jónasson er að vonum sáttur með verkið. Ljósmynd/Aðsend

Hópur fólks tók sig til í haust og reisti heila brú á landi Hænuvíkur á Vestfjörðum úr engu nema grjóti úr grenndinni. Forsprakkinn segir að ævintýramennska og áhugi á verkfræði hafi komið öllu saman af stað. Nú stendur brúin keik, gerð úr grjóti eingöngu.

Forsprakkinn, Óskar Jónasson, segir að hann hafi gengið með hugmyndina í maganum um tíma, lesið sér til um brýr sem þessar og komist að því að þyngdaraflið væri lykilatriðið. Hann spyr sig að því hvers vegna Íslendingar nýti sér ekki efni sem er að finna í þeirra eigin náttúru sem byggingarefni meir en raun ber vitni í stað þess að flytja sífellt inn sement.

Brúin er gerð úr 100% grágrýti, ekki steypu eða öðrum …
Brúin er gerð úr 100% grágrýti, ekki steypu eða öðrum gerviefnum. Ljósmynd/Aðsend

Ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera

Brúin var reist í haust og kom góður hópur að verkinu sem fór tvær ferðir vestur. Einn verkfræðingur var í hópnum en annars fólk sem hefur „áhuga á eðlisfræðinni í kringum okkur,“ eins og Óskar orðar það.

„Það höfðu allir bara mjög gaman af þessu. Þetta er dálítið spennandi uppbygging að þessu augnabliki þegar undirstöðurnar eru teknar undan. Þegar við erum búin að raða þessu öllu saman og þetta liggur þarna ofan á trégrindinni sem er undirstaðan þá er næsta skrefið að fjarlægja trégrindina undan og það er náttúrulega lyginni líkast að allt þetta þunga grjót sem maður er búinn að rogast með skuli haldast uppi. Það eru örugglega ansi mörg tonn af grjóti í þessu. Það fór nú þannig að þegar við fjarlægðum undirstöðurnar þá hrundi hluti af brúnni og við þurftum að pota þeim aftur undir og laga það sem hafði verið mislukkað vegna þess að þetta er ekkert einfalt, kannski ekki eins einfalt og þetta lítur út fyrir að vera.“

Gutti í Hænuvík og Jón Örn fiskeldisfræðingur ræða málin við …
Gutti í Hænuvík og Jón Örn fiskeldisfræðingur ræða málin við brúna. Ljósmynd/Aðsend

En hver er lykillinn að því að brú sem þessi standi?

„Steinarnir þurfa að liggja mjög þétt saman. Þeir þurfa að vera svona þokkalega réttir í laginu sem eru svona ákveðin fræði. Svo byggist þetta á massívum, góðum lykilsteinum í miðjunni. Það þurfa eiginlega að vera þannig steinar þversum efst. Það þrýstir á báða brúarvængina þannig að hún helst á sínum stað,“ segir Óskar. Nauðsynlegt er að allir steinarnir „tali saman“.

Gamla brúin er ekki alveg jafn tilkomumikil og sú nýja.
Gamla brúin er ekki alveg jafn tilkomumikil og sú nýja. Ljósmynd/Aðsend

Miklu jákvæðara en allt sementið

Ævintýramennska kom Óskari af stað í verkefnið en hann segist ekki skilja hvers vegna brýr sem þessar voru ekki reistar á Íslandi hér áður fyrr.

„Ég hef áhuga á svona töfrabrögðum og gaman af því að vinna með grjót og torf og náttúruleg efni. Mér finnst þetta vera miklu jákvæðara en allt þetta sement sem við erum að nota úti um allt. Það er engin steypa í þessari brú og hvergi límt saman á neinn máta. Ég held að við gætum alveg byggt miklu meira úr þeim efnum sem við höfum hérna á landinu í stað þess að vera að flytja inn allt þetta sement yfir hafið.“

Brúin hlaðin með undirlagi sem síðar var fjarlægt. Þá féllu …
Brúin hlaðin með undirlagi sem síðar var fjarlægt. Þá féllu einhverjir steinar úr henni en úr því var bætt.

Þvert á það sem blaðamaður getur sér til um segir Óskar að heimatökin hafi verið mjög hæg, allt efnið í brúna var nefnilega að finna í grenndinni. Steinarnir voru sóttir upp í fjall og timbrið sem var notað í undirstöðuna var gamalt og lúið.

Kindurnar „elska brúna“

Einhverja steina þurfti að höggva til svo að brúin stæði sem best.

„Ég hafði samband við steinhleðslumann fyrir austan sem var í Landanum um daginn og hann gaf mér nokkur góð ráð og benti mér meitla sem vinna á þessu grágrýti. Það var nauðsynlegt, sérstaklega þegar kom að því að skeyta þessum mikilvægu lykilsteinum inn. Þeir verða að smellpassa til þess að læsa þessu öllu saman,“ segir Óskar

Kindurnar á svæðinu furðuðu sig í fyrstu á öllu umstanginu …
Kindurnar á svæðinu furðuðu sig í fyrstu á öllu umstanginu en hafa nú tekið brúna í sátt. Ljósmynd/Aðsend

Kindurnar í sveitinni voru í fyrstu nokkuð hissa yfir hamaganginum, ef marka má myndir sem Óskar birti af ferlinu. Nú er komið annað hljóð í kindurnar.

„Þær bara elska þessa brú. Þær pæla kannski ekkert mikið í því hvað sé undir brúnni eða hvernig hún sé saman sett. Þær líta bara á brúna sem hvert annað grjót sem þær eru vanar að þramma yfir,“ segir Óskar.

mbl.is