Skipulagðar skimanir á Landspítala

Hluti starfsmanna verður skimaður með skipulögðum hætti.
Hluti starfsmanna verður skimaður með skipulögðum hætti. mbl.is/Golli

Ákveðið hefur verið að skima fyrir kórónuveirunni með skipulögðum hætti meðal starfsmanna Landspítalans. Skimanirnar ná til starfsmanna á Landakoti og öðrum deildum spítalans, í ljósi hópsýkingar sem kom upp á Landakoti. Von er á nánari upplýsingum um umfang og skipulag skimananna.

Alls eru 126 smit meðal starfsmanna og sjúklinga rakin til hópsýkingarinnar, sem hefur dreift sér á aðrar deildir spítalands. Eru 65 starfsmenn smitaðir (46 á Landakoti, sex á Reykjalundi, 10 á Sólvöllum, þrír annars staðar) og 61 sjúklingur (39 á Landakoti, fimm á Reykjalundi, 16 á Sólvöllum, einn annars staðar). Ekkert nýtt smit hefur þó greinst utan skilgreinds hóps útsettra starfsmanna og sjúklinga, að því er segir í stöðuskýrslu Landspítalans frá því klukkan 17 í dag.

Alls eru 63 sjúklingar inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19. Þar af eru þrír á gjörgæslu, og tveir þeirra í öndunarvél. Þá eru 967 sjúklingar undir eftirliti Covid-19-göngudeildar. Alls eru 242 starfsmenn spítalans í sóttkví og 57 í einangrun með veiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert