„Alger himnasending“

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, fagnar því að Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfyrirtæki þess í matvælaframleiðslu ætli að gefa fólki í erfiðleikum matvöru, sem svarar til 40 þúsund máltíða, fram til jóla.

„Þetta er alger himnasending,“ segir Ásgerður Jóna í samtali við Morgunblaðið og bætir við að þörfin fyrir aðstoð af þessu tagi sé gríðarleg og aukist dag frá degi.

„Þetta er stærsta matargjöf allra tíma og hún gæti ekki komið á betri tíma. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því hvað ástandið er slæmt,“ segir Ásgerður og bætir við að hún hafi ekki kynnst öðru eins á 26 ára ferli við hjálparstörf.

„Þörfin hefur aldrei verið meiri, ekki einu sinni í hruninu,“ bætir hún við, orðum sínum til áréttingar.

„Ég get eiginlega ekki lýst því hvað ég varð glöð þegar Þórólfur [Gíslason kaupfélagsstjóri] hringdi í mig, þetta bjargar öllu,“ segir hún og bætir við að hún voni að þetta fordæmalausa örlæti verði öðrum hvatning til að gefa til þeirra, sem nú þurfa á hjálp að halda.

Á næstu dögum verður unnið að skipulagningu dreifingar matvörunnar og verður hjálparstofnunum falið að koma matargjöfunum til þeirra, sem á þurfa að halda. Til þess þarf mikla skipulagningu, bæði við að útbúa matarpokana og koma þeim í réttar hendur, sem vitaskuld er enn erfiðara en endranær vegna sóttvarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert