„Allt sem ég átti er farið“

Erna Christianssen með hundana sína.
Erna Christianssen með hundana sína.

Erna Christiansen, ung kona sem missti sex hunda í eldsvoða Kópavogi í vikunni, segir að þeir hafi allir verið henni sem fjölskylda, hver og einn með einstakan persónuleika. Þeir yngstu sem Erna missti í eldsvoðanum voru ekki nema sex vikna gamlir. Áfallið er mikið en fjölskyldan sem í húsinu býr „missti allt“ að sögn Ernu.  

„Það versta við þetta er að ég fer alltaf að rifja upp öskrin, samt að skammast í því að það hafi einhver stoppað mig í því að hlaupa inn. Ég hefði gert það ef enginn hefði verið þarna. Maður vill auðvitað reyna sitt,“ segir Erna um það þegar hún kom að eldsvoðanum.

„Ég reikna ekki með því að eignast börn þannig að þetta eru börnin mín og hafa alltaf verið það.“

Hvolparnir þrír sem voru einungis sex vikna gamlir þegar þeir …
Hvolparnir þrír sem voru einungis sex vikna gamlir þegar þeir kvöddu þennan heim. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru fjölskyldumeðlimir“

Fjórum hundum var bjargað úr eldsvoðanum. Þeir eru nú að braggast en bataferlið er langt og strangt.

„Það er erfitt að fá þær til að borða og gera þetta daglega. Við erum bara að reyna að leyfa þeim að hafa allt eins venjulegt og hægt er,“ segir Erna. Hundarnir fengu kvíðalyf í dag.

Erna er hundaræktandi en hún tók á móti sínu fyrsta goti árið 2016. Hún ræktar hunda af tegundinni Russian toy undir merkjum ræktunarinnar Great Icelandic Toy. Erna missti þau Echo, Abby og Monu í eldsvoðanum ásamt þremur hvolpum Monu, Oriönu, Ohönu og Mola.

„Þetta eru ekki bara ræktunardýr, þetta eru fjölskyldumeðlimir.“

Erna með Abbý.
Erna með Abbý. Ljósmynd/Aðsend

Erna segir að enginn hafi verið eins og Abbý. Hún hafi verið mjög hænd að Ernu.

„Hún hafði alltaf gaman af því að leika og var alltaf einhvern veginn til staðar. Hún elskaði að nöldra og spangóla. Líkaði vel við alla hvolpa og tók alla hvolpa að sér. Hún var alltaf svona seinni mamman. Hún var eiginlega bara næstum því fullkomin eins skrýtin og hún gat verið,“ segir Erna.

Mona hafði verið hjá Ernu í þrjú ár. Hún var mjög háð eiganda sínum en fullkomin mamma, að sögn Ernu. Hvolparnir hennar voru allir sinn eigin karakter, elskuðu að kúra en voru ekki alveg tilbúnir í að skoða heiminn.

Hér má sjá Echo sem Erna segir að hafi verið …
Hér má sjá Echo sem Erna segir að hafi verið algjör draumur. Ljósmynd/Aðsend

„Þær voru eiginlega alveg eins

Echo var afkomandi hunds sem Erna hafði áður misst í slysi.

„Þær voru eiginlega alveg eins. Ég tók á móti henni þegar hún fæddist svo fór hún til vinkonu minnar vegna þess að vinkona mín átti mömmuna og svo fékk ég Echo þegar hún var tilbúin að fara. Hún var algjör draumur,“ segir Erna.

Hálsmenið sem Erna náði að bjarga.
Hálsmenið sem Erna náði að bjarga. Ljósmynd/Aðsend

Eldurinn kviknaði í húsi Ernu og foreldra hennar á þriðjudag, líklega út frá lampa. Erna segir að atburðarásin hafi verið hröð en samt hafi allt einhvern veginn liðið hratt áfram.

„Slökkviliðsmennirnir komust ekki inn alveg strax og það þurfti eiginlega að draga mig í burtu. Svo sat ég bara inni hjá nágrönnunum og fékk ekki að vita neitt fyrr en ég treysti mér í það að fara út. Að horfa á þetta og miðað við litlu líkamana þá var eiginlega engin von eftir fyrr en ég fékk þær fréttir að einhverjum hefði verið bjargað. Ég fékk ekki að vita það fyrr en ég fór niður á dýraspítala hvað voru margir sem fóru þangað.“

Eyðileggingin var mikil eftir eldsvoðann.
Eyðileggingin var mikil eftir eldsvoðann. Ljósmynd/Aðsend

Rétt náðu að bjarga persónulegum munum

Spurð um eignatjón segir Erna að það sé gífurlegt. Hún hafi þó náð að bjarga öskukrukkum frá hundum sem hún hafði áður misst sem og hálsmeni með eftirmynd af loppufari ömmu Echo.

„Við misstum eiginlega allt. Allt sem ég átti er farið. Við rétt náðum að bjarga persónulegum og tilfinningalegum hlutum.“

Treystirðu þér til að halda áfram í ræktun eftir þetta tjón?

„Á maður ekki alla vega að gera það sem gerir mann hamingjusaman? Maður má ekki detta of langt niður. Þó þetta hafi farið svona. Við þurfum samt að skoða það vel hvað við getum gert ef við tökum ákvörðun um að halda áfram,“ segir Erna.

Söfnun til styrktar Ernu hefur verið hrundið af stað.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á eftirfarandi reikning:

Kennitala: 240797-2089

Reikningsnúmer: 0130-26-3831

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert