Andlát: Pétur Bjarnason myndhöggvari

Pétur Bjarnason.
Pétur Bjarnason. Ljósmynd/Nærmynd

Pétur Bjarnason myndhöggvari er látinn, 65 ára að aldri. Hann fæddist í Reykjavík 20. september árið 1955, sonur hjónanna Bjarna Kristinssonar og Ernu Árnadóttur. Pétur lést á Landspítalanum við Hringbraut 26. október sl.

Hann ólst upp í Vesturbænum, gekk í Melaskóla og Hagaskóla, fór síðan í Verzlunarskólann, lauk verslunarprófi og stundaði síðan nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hann nam myndlist við Fachhochschule í Aachen í Þýskalandi og öðlaðist síðan MA-gráðu við National Higher Institute for Fine Arts í Antwerpen í Belgíu þar sem hann lærði m.a. málmsteypu.

Pétur við tvö listaverka sinna þar sem hann notaðist við …
Pétur við tvö listaverka sinna þar sem hann notaðist við steypuleiðara og loftpípur. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Eftir heimkomu setti hann upp verkstæði á lóð fjölskyldufyrirtækisins Glerborgar ehf. í Hafnarfirði og kom sér síðan upp stærri aðstöðu á eigin verkstæði í Hafnarfirði þar sem hann hafði m.a. bronssteypu.

Hann vann til verðlauna í samkeppnum hérlendis og erlendis og var fenginn til þess að búa til listaverk af ýmsum tilefnum fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Eftir hann liggja m.a. mörg vegleg málmlistaverk sem bera vott um hæfileika hans sem listamanns. Má þar nefna verðlaunaverkið Farið við Pollinn á Akureyri, Partnership við Sæbraut í Reykjavík og í Flórída, vatnslistaverkið Uppsprettu við Vídalínskirkju í Garðabæ, listaverkið Ægisdyr við Ásgarð í Garðabæ, listaverk við KR-heimilið við Frostaskjól og listaverkið Fyrir stafni við höfuðstöðvar Eimskips í Sundahöfn og minnisvarða um Sigurjón Rist við Tungnaá. Auk þessa liggja eftir hann fjölmörg smærri listaverk.

Pétur sinnti kennslu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskólanum. Hann hélt nokkrar einkasýningar og tók þátt í samsýningum.

Höggmyndin Partnership stendur við Sæbraut og er eftir Pétur. Hún …
Höggmyndin Partnership stendur við Sæbraut og er eftir Pétur. Hún var afhjúpuð árið 1991. Voru það bandarísku sendiherrahjónin Charles E Cobb Jr. og Sue Cobb sem færðu Reykjavíkurborg verkið í tilefni 50 ára formlegs stjórnmálasambands Íslands og Bandaríkjanna.

Á seinni árum sinnti hann viðgerðum og viðhaldi á listaverkum eftir látna og núlifandi myndhöggvara.

Pétur var bæjarlistamaður Garðabæjar árið 1992.

Eftirlifandi eiginkona Péturs er Sigríður Jóhannesdóttir og eru börn þeirra Jón Bjarni, Skúli Steinar og Guðrún María.

Útför Péturs mun fara fram í kyrrþey.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert