Borgin kaupir húsnæði Vörðuskóla

Vörðuskóli í Reykjavík.
Vörðuskóli í Reykjavík. Skjáskot/Ja.is

Borgarráð samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um kaup á húsnæði Vörðuskóla á Barónsstíg 34. Skóla- og frístundasviði verður falið að gera tillögu að safnskóla á unglingastigi í samráði við nærliggjandi skóla með hliðsjón af spám um þróun nemendafjölda til skemmri og lengri tíma og framtíðarsýn um spennandi skólastarf í nýrri menntastefnu borgarinnar.

Þetta kemur fram í fundargerð.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Í þeim tilgangi að byggja upp safnskóla á unglingastigi í ljósi fjölgunar íbúa til framtíðar í hverfum í kringum Vörðuskóla er lagt til að borgin kaupi hlut ríkisins í þessu mikilvæga mannvirki. Vörðuskóli stendur við Barónsstíg og er við hlið Austurbæjarskóla. Hann er teiknaður af Guðjóni Samúelssyni og lauk smíði hans árið 1949.“

Í bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins kom fram að þetta væru frábærar fréttir. „Sameiginlegt eignarhald húsa hjá ríki og borg hefur ekki gefist vel sbr. Harpa. Byggingin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni fyrrverandi húsameistara ríkisins og var fullbyggð í kringum 1949. Ljóst er að leggja þarf mikla fjármuni í breytingar og viðhald á húsinu. Vonast er til að útboðsmál og framkvæmdir verði faglegar og þær innan fjárhagsramma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert