Engar sérreglur fyrir mótefnamælda

Þórólfur Guðnason á fundi sem ríkisstjórn Íslands boðaði til í …
Þórólfur Guðnason á fundi sem ríkisstjórn Íslands boðaði til í dag. Eggert Jóhannesson

Sístækkandi hópur fólks í samfélaginu hefur ónæmi fyrir Covid-19 veirunni. Engu að síður telur Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, óráðlegt að láta þann hóp njóta meira svigrúms en þá sem ekki hafa fengið veiruna. Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala segir að engin samræmd mótefnapróf séu til á milli landa.

Geti valdið glundroða 

Hefur komið til álita að veita fólki sem hefur fengið Covid-19 lausn til þess að geta t.a.m. farið í líkamsrækt?  

„Það er bara ekki hægt. Við höfum prófað ýmsar útgáfur og undanþágur og klæðskerasauma ýmsar aðgerðir. Það hefur skapað vandamál, glundroða og óskýrleika og ég held að ef við ætluðum að gera það núna, þá held ég að það myndi valda vandamálum,“ segir Þórólfur. 

Hann telur að þessir einstaklingar með staðfest mótefni eigi fyrst og fremst að vera ánægðir með að sýkjast ekki aftur.  „Hins vegar þurfa þeir að passa sig. Því þó þeir veikist ekki geta þeir borið smit í aðra. Þeir geta borið smit á höndunum og þeir geta borið smit í öndunarveginum. Þeir þurfa fyrst og fremst að passa sig gagnvart öðrum þó þeir þurfi ekki eins að passa sig gagnvart sjálfum sér,“ segir Þórólfur að loknum blaðamannafundi í dag. 

Niðurstaða íslenskrar erfðagreiningar frá því í sumar gaf til kynna að um 1% þjóðarinnar væri með mótefni fyrir Covid 19. Það gæti umreiknast sem um 3600 manns af þjóðinni í heild. Síðan hefur bæst vel í þennan hóp. 

Sístækkandi hópur nýtur þess að vera með mótefni.
Sístækkandi hópur nýtur þess að vera með mótefni. Árni Sæberg

Fólk vilji njóta þess að hafa fengið sýkinguna 

Karl G. Kristinsson situr í sóttvarnarráði. Hann segir að mál fólks með mótefni hafi ekki verið rædd þar. Hann telur þó eðlilegt að spurningar í þessa átt verði algengari eftir því sem líður á faraldurinn. „Það fer að koma að því að það þurfi að taka afgerandi afstöðu til þessa máls því það fer að líða að því að fólk vilji njóta þess að hafa fengið sýkinguna og vera með mótefni,“ segir Karl.  

„Menn geta smitað með því að fá veiruna á sig og bera hana áfram en það er ólíklegt að þeir sýkist og dreifi veirunni eins og smitandi einstaklingar,“ segir Karl. 

Engin samræming á milli landa 

Ein af þeim vangaveltum sem heyrst hefur frá fólki sem er með mótefni er sú hvort ekki sé eðlilegt að geta ferðast óheft á milli landa. Karl segir að það sé vandkvæðum háð. „Evrópska sóttvarnarmiðsstöðin hefur ekki gefið út samræmda vottun um það hvaða aðilum beri að treysta þegar kemur að mótefnamælingu. Það eru mörg mótefnapróf í gangi. Sumar rannsóknir eru mjög einfaldar á meðan aðrar rannsóknir eru framkvæmdar á viðurkenndri rannsóknarstofu. Þetta er því ýmsar pælingar sem ekki hefur verið tekin afstaða til,“ segir Karl. 

Karl G Kristinsson Yfirlæknir á sýkla og veirufræðideild LSH
Karl G Kristinsson Yfirlæknir á sýkla og veirufræðideild LSH Árni Sæberg

En höfum við ekki stofnanir innanlands sem við treystum sem gætu gefið út sína afstöðu?  

Jú, en það er óvíst hvort að önnur stjórnvöld myndu taka mark á því. Nema þá að við myndum gera samræmast með öðrum Norðurlöndum eða evrópska sóttvarnar miðstöðinni,“ segir Karl.  

mbl.is