Mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir uppbyggingu borgarlandsins á blaðamannafundi …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir uppbyggingu borgarlandsins á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðastliðin ár hafa verið metár hvað varðar fjölgun Reykvíkinga en þeim hefur fjölgað um tæplega 3.000 árlega á síðustu tveimur árum og lítur allt út fyrir að þeim fjölgi jafn mikið í ár. Þá er 2020 „algjört metár“ hvað varðar tilbúnar íbúðir, að sögn borgarstjóra. 1.200 íbúðir verða tilbúnar í ár og eru flestar þeirra þegar seldar. 3.000 íbúðir eru nú í byggingu. 

„Það er algjört metár í fjölgun Reykvíkinga síðastliðin þrjú ár, þeim fjölgaði um tæplega 3.000 í fyrra og hitt í fyrra. Það virðist stefna í svipaða þróun núna, þrátt fyrir óvissuna og þrátt fyrir Covid,“ sagði Dagur B. Eggertsson á kynningarfundi um þróun borgarlandsins í morgun. 

Þar kom fram að borgin þurfi að byggja um þúsund íbúðir árlega næstu fimm ár og raunar lengur til að anna eftirspurn. Mikið hefur verið byggt á síðustu árum, að sögn Dags sem fór yfir þróunina.

„Við erum stödd á mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar. Árið 2020 er fimmta árið þar sem við erum að byggja mun meira en á meðalári. Við höfum verið að byggja yfir 900 íbúðir öll árin. Raunar var 2018 algjört metár þegar yfir 1.400 íbúðir fóru í byggingu. Talan lækkaði aðeins í fyrra en við sjáum á tölunum í ár að við erum komin yfir útgefin byggingaleyfi síðasta árs [846 talsins] og spáum því að við lyftum okkur yfir 1.000 íbúða markið en það er einmitt þar sem við viljum vera að meðaltali til næstu 10 og kannski 20 ára,“ sagði Dagur. 

„Við erum að stefna að kraftmiklum vexti borgarinnar í græna átt inn á við.“

Mikill fjöldi af íbúðum hefur verið byggður á Hlíðarenda.
Mikill fjöldi af íbúðum hefur verið byggður á Hlíðarenda. mbl.is/Árni Sæberg

Markmiðið að öll uppbygging verði innan vaxtarmarka

Markmiðin í þróun borgarinnar eru skýr, að sögn Dags. Þau eru: Þéttari byggð, öflug uppbygging óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga og hágæða almenningssamgöngur.

Það var markmið borgarinnar að 90% af uppbyggingu ætti að vera innan núverandi marka borgarinnar eða höfuðborgarsvæðisins. Raunin er sú að ppbyggingin hefur á síðustu árum verið 95% innan þeirra marka. Nú er markmiðið að öll uppbygging verði innan vaxtarmarka.

Þá sagði Dagur að gríðarlegur vöxtur væri í íbúðauppbyggingu í borginni. „Á meðan þetta er jafnara eða jafnvel lækkandi tölur í nágrannasveitarfélögunum.“ 

Brynjureitur er á meðal svæða þar sem íbúðir hafa verið …
Brynjureitur er á meðal svæða þar sem íbúðir hafa verið byggðar nýlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bankarnir „misreiknuðu eftirspurnina“

Eins og áður segir hefur Reykvíkingum fjölgað mikið að undanförnu og sagði Dagur að um væri að ræða mun hærri prósentutölur en sést hefðu lengi. Meðaltal fjölgunar í prósentum hefur verið í kringum 0,9% frá árinu 1960 en síðustu tvö ár hefur hún verið um eða yfir 2%. Það sagði Dagur að væri mikill vöxtur í borg. 

Hann sagði að síðastliðna mánuði hafi bankarnir verið hikandi með að lána í ný íbúðaverkefni. Það hafi nú breyst þar sem spár um að nýjar íbúðir myndu seljast hratt hafi brugðist. 

„Ég held að það séu allir sammála um það núna að bankarnir misreiknuðu eftirspurnina vegna þess að allar þær 100 og þúsundir íbúða sem hafa komið inn á markaðinn hafa verið rifnar út. Við sjáum að velta á fasteignamarkaði er að aukast. Auðvitað tengist það líka lækkun vaxta en það er mjög áberandi að meðalsölutími hefur verið að dragast saman svo íbúðir eru skemur ísölu en áður.“

Dagur ræddi um Borgarlínuna á fundinum í dag og sagði …
Dagur ræddi um Borgarlínuna á fundinum í dag og sagði að nýjar íbúðir yrðu helst byggðar í grennd við hana. Teikning/Melvær&Co

Markaðurinn kallar á fleiri tveggja herbergja íbúðir

Samkvæmt Degi kallar markaðurinn nú á fleiri tveggja herbergja íbúðir. Aldrei hafi borgaryfirvöld séð jafn mikla eftirspurn eftir því að búa í Reykjavík.

„Við teljum að það endurspegli að þeir reitir sem hafa verið að koma út á markaðinn hafi verið að mælast mjög vel fyrir og við eins og áður sjáum að hugurinn stefnir vestan Miklubrautar, í vesturhluta borgarinnar þar sem stærstu vinnustaðirnir eru, einmitt til þess að minnka ferðatímann til og frá vinnu.“

Hlutfall fyrstu kaupenda er jafnt og þétt á uppleið. 

„Það er kannski engin tilviljun vegna þess að fólk er eldra þegar það flytur að heiman og það hafa verið að safnast upp stórir hlutar af árgöngunum á milli 20 og 30 í foreldrahúsum. Bæði er fólk að stefna þaðan út og fólk að stefna í minna húsnæði til þess að hafa kannski svigrúm til að gera aðra hluti þegar efri árin færast yfir,“ sagði Dagur.

Reykjavíkurborg hefur gert athugasemdir við upplegg hlutdeildarlána. 

„Við styðjum grunnhugsunina en teljum að upphæðirnar séu of þröngar og við gerum líka athugasemdir við það að borgarbúar og höfuðborgarsvæðið geti ekki nýtt slík lán við þegar byggðar íbúðir fyrst það eigi að veita slík lán fyrir eldri íbúðir utan höfuðborgarsvæðisins. Við höfum enga að síður trú á því að þetta geti nýst fyrir verkefni sem við höfum verið með í undirbúningi í um tvö ár,“ sagði Dagur.

mbl.is