Rekja þrjár hópsýkingar í þriðju bylgjunni

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

„Við sjáum alveg skýrt þegar byrjar að myndast hópsýking og við sjáum vel þegar sóttkvíin byrjar að grípa, hvernig greinin hættir að vaxa og hlekkjunum fækkar og þeir hverfa,“ segir Jó­hann Björn Skúla­son, yf­ir­maður smitrakn­ingart­eym­is al­manna­varna, í samtali við mbl.is. Nóg er að gera hjá starfsmönnum teymisins þessa dagana en alls er nú verið að rekja þrjár hópsýkingar kórónuveirufaraldursins.

Þær eru á Landakoti, í Ölduselsskóla og á Akureyri. Jóhann segir aðspurður að rakningarteymið sé ekki farið að sjá „Landakotsgreinina“ hætta að vaxa.

Jóhann segir álag og starfsemi rakningarteymisins að einhverju leyti allt öðruvísi en í fyrstu bylgjunni í vor en þó séu margir ferlar eins. Í vor var mest um að ræða smit hjá fólki sem kom frá útlöndum, fljótlega var farið í hertar aðgerðir og veiran var kveðin í kútinn.

Hátt í hundrað starfsmenn

Núna sé fimm daga sóttkví, tvöföld sýnataka á landamærum, stytting á sóttkví þannig að fólk lýkur henni á sjöunda degi með sýnatöku. „Það er því margt öðruvísi en hvað varðar afgreiðslu er þetta nokkuð svipað,“ segir Jóhann.

Hann segir starfsmenn teymisins hátt í hundrað en stór hluti þeirra eru landamæraverðir á Keflavíkurflugvelli. „Þeir hafa samband við alla sem fara í sóttkví og aðstoða okkur við þær útskýringar og skráningar í kringum það.“

Miðað er við að þriðja bylgja faraldursins hafi byrjað hér á landi 15. september en síðan þá hafa 2.443 smitast af veirunni. Flest hingað til voru 99 smit 5. október en Jóhann segir að auðvitað sé mjög mikið að gera hjá teyminu þessa stærstu smitdaga.

„Það er mikið að gera þá en við erum með nokkuð mótað kerfi og verkaskiptingu og ferli sem rúllar býsna vel. Eins og staðan er í dag eru engar tafir á ferlinu hjá okkur.“

Flestir bregðast vel við símtalinu

Borið hefur á farsóttarþreytu meðal landsmanna og talað hefur verið um að fólk sé tregara til að sætta sig við hertar aðgerðir vegna veirunnar nú en í vor. Jóhann segir flesta bregðast vel við símtali frá rakningarteyminu en vissulega séu einhverjir ósáttir.

„Það eru rosalega fáir miðað við fjöldann. Oft við umræðu áttar fólk sig á því hversu nauðsynlegt þetta er,“ útskýrir Jóhann og bætir við að fólk sé meðvitað, þá um þær takmarkanir sem eru í gildi í samfélaginu og hverja það hefur hitt þurfi það að fara í sóttkví eða einangrun:

„Í flestum tilvikum heyrum við strax að fólk getur gefið mjög greinargóða lýsingu á því hverja það hefur hitt og þá er auðvelt að meta þörf fyrir sóttkví.

Eitthvað hefur borið á óánægju með að of langur tími líði frá því fólk hitti einstakling, sem síðar smitist af veirunni, og þangað til það er sent í sóttkví. 

„Við upphaf þessarar bylgju í kjölfar smita í miðbæ Reykjavíkur kom alveg gríðarlegur fjöldi og þá urðu einhverjar tafir. Heilt yfir afgreiðum við þetta hratt. Einu tafirnar í dag eru ef þeir sem greinast jákvæðir eru lengi að að koma frá sér nöfnum þeirra sem þeir hafa hitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert