Seðlabanki sýknaður af kröfum Samherja

Við upphaf aðalmeðferðar í máli Samherja gegn Seðlabanka Íslands í …
Við upphaf aðalmeðferðar í máli Samherja gegn Seðlabanka Íslands í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabanki Íslands hefur verið sýknaður af kröfum útgerðarfélagsins Samherja, sem krafist hafði rúmlega 306 milljóna króna í skaðabætur og 10 milljóna í miskabætur frá bankanum.

Kröfur Samherja voru reistar á því að félagið hefði þurft að greiða 306 í laun til starfsmanna sem komu að málsvörn fyrirtækisins gegn málarekstri Seðlabankans, er hann rannsakaði meint brot fyrirtækisins á reglum um gjaldeyrismál.

Stór hluti upphæðarinnar, um 250 millj­ón­ir króna, væru til komnar vegna kostnaðar við þjón­ustu lög­fræðinga.

Tæplega í málefnalegum tengslum við rannsókn

Í dóminum segir meðal annars að sumir þeirra reikninga, sem Samherji vísaði til í málinu, séu vegna kostnaðar sem tæplega verði talinn í málefnalegum tengslum við rannsókn Seðlabankans eða aðrar aðgerir.

„Á það meðal annars við um reikning Lex lögmannsstofu að fjárhæð 55,5 milljónir vegna kostnaðar sem Arna Bryndís McClure, starfsmaður stefndanda, kvað meðal annars annars að kominn væri til vegna umfangsmikilla starfa í tengslumvið kæru til Mannréttindadómstóls fyrir breskt fyrirtæki en Mannréttindadómstóllinnhefði síðan vísað kærunni frá,“ segir í dóminum.

„Engin frekari gögn um þá vinnu og hvernig hún tengist þeirri háttsemi stefnda sem skaðabótakrafa stefnanda byggist á liggja hins vegar fyrir í málinu.“

Takmörkuð sönnunarfærsla um tjón

Þá verði heldur ekki séð af gögnum málsins, „hvort og að hvaða leyti ráðgjafarstörf Jóns Óttars  Ólafssonar, sem  félögin  Juralis-ráðgjafarstofa  slhf.  og  PPP  sf.  gáfu  út  reikninga  fyrir,  og nema rúmlega 135 milljónum króna voru stefnanda nauðsynleg vegna rannsóknar stefnda og þar með afleiðing af háttsemi stefnda sem sjá mátti fyrir“, segir enn fremur í dóminum.

Ríkari kröfur verði þá að gera til sönnunarfærslu um að háttsemi bankans hafi valdið tjóni, þegar um sé að ræða vinnu starfsmanna en ekki aðkeypta vinnu.

„Takmörkuð sönnunarfærsla stefnanda um tjón sitt hvað  þetta varðar  gerir  enn fremur  að verkum að dómurinn getur ekki tekið afstöðu til þess að hversu miklu leyti störf Örnu voru tengd húsleitar- og  haldlagningaraðgerðum  samkvæmt  kröfu  stefnda,  þar  sem  dómurinn  hefur  hafnað bótaskyldu, og hversu stór þáttur starfa hennar sneri að rannsókn stefnda, þar sem dómurinn hefur fallist á að tiltekin skilyrði skaðabótaskyldu séu uppfyllt.“

Málið var rekið fyrir héraðsdómi í september, samhliða máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Honum voru, ólíkt fyrirtækinu, dæmdar bætur frá bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert