„Skólarnir verða áfram opnir“

Lilja Alfreðsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir …
Lilja Alfreðsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á fundinum í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra telur ástæðu til að bregðast við því að kórónuveirusmit séu farin að færast inn í yngri aldurshópa en nú gildir reglugerð ráðherra um alla nema börn sem eru fædd árið 2015 og síðar. Áður var miðað við fæðingarárið 2005 og voru því öll börn á grunnskólaaldri undanþegin takmörkunum. 

Sú regla auðveldaði, eins og gefur að skilja, skólastarf verulega. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, sagði á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þar sem hertar aðgerðir voru kynntar í dag að reglugerð um skólastarf yrði kynnt um helgina.

„Skólarnir verða áfram opnir en það verða einhverjar takmarkanir,“ sagði Lilja. 

Um 180 börn í einangrun 

Reglugerðin kveður meðal annars á um að einungis 10 manns megi koma saman. Undanþága er þó gerð á því hvað varðar ungmenni fædd 2002 og síðar. Þau mega vera allt að 25 saman í hverju rými en tveggja metra nálægðarmörk gilda samt sem áður.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja sagði að það skipti miklu máli að hlustað væri á nemendur og vilja þeirra í þessum efnum. 

„Við ætlum að koma öllum aftur í skóla og vera bjartsýn og sýna þrautseigju,“ sagði Lilja sem þakkaði skólastjórnendum, kennurum og nemendum fyrir hugrekki og þrautseigju. 

Hingað til hefur heilbrigðisyfirvöldum verið tíðrætt um litla smithættu hvað börn varðar. Spurð hvort stefnubreyting hafi orðið í þeim efnum sagði Svandís:

„Smitin hafa verið að færast inn í yngri aldurshópa. Það er ástæða til að bregðast við því.“

Um 180 börn eru nú í einangrun vegna Covid-19. Flest barnanna, eða 92, eru á aldrinum 6-12 ára. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert