Staðan hreint ekki nógu góð

Birna Hafstein, formaður FÍL.
Birna Hafstein, formaður FÍL.

„Þessar niðurstöðu koma mér satt að segja á óvart. Í einfeldni minni hélt ég að við værum komin lengra. Sú staða sem blasir við er hreint ekki nógu góð,“ segir Birna Hafstein, forseti Sviðslistasambands Íslands og formaður Félags íslenskra leikara, um niðurstöðu skýrslunnar „Einelti og áreitni í starfsumhverfi sviðslista“ sem RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands vann að beiðni Sviðslistasambandsins og kynnt var formlega í vikunni.

Í skýrslunni er leitast við að kortleggja umfang og eðli kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og eineltis í starfsumhverfi sviðslistafólks á Íslandi. 52% þátttakenda svöruðu spurningu um reynslu af kynferðislegri áreitni í tengslum við nám sitt og störf í sviðslistum játandi og 46% samsvarandi spurningu um kynbundna áreitni. Það er mat skýrsluhöfundar að áreitni og einelti hafi verið og séu enn umfangsmikið vandamál innan sviðslista á Íslandi. Há tíðni bendi til þess að skýringa sé ekki síður að leita í menningu sviðslistanna en hjá einstaklingum

Vanlíðan í starfi sem afleiðing

Höfundur skýrslunnar er Kristín A. Hjálmarsdóttir kynjafræðingur og ritstjóri hennar er Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri RIKK. Gagna var aflað vorið 2019 með rafrænni spurningakönnun sem send var til 931 félagsmanns í átta fagfélögum sviðslistafólks á Íslandi, þar sem Félag íslenskra leikara er langfjölmennasta félagið. Svarhlutfallið var 42% og gáfu 95% svarenda upp kyn sitt, en 59% svarenda voru konur og 41% karlar sem er sama kynjahlutfall og í úrtakinu. Notaður var einn spurningalisti sem samanstóð af 97 spurningum um bakgrunn þátttakenda, viðhorf til kynferðislegrar áreitni og reynslu af kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og einelti.

Sé rýnt frekar í skýrsluna má sjá að konur (60%) verða fremur fyrir kynferðislegri áreitni en karlar (30%). Sviðslistakonur (55%) eru líklegri en starfsbræður þeirra (31%) til að verða fyrir kynbundinni áreitni. Um þrír af hverjum tíu þátttakendum sögðust hafa upplifað einelti í tengslum við störf sín eða nám í sviðslistum. Bæði konur og karlar áreita og leggja í einelti, en meirihluti gerenda eru karlar. Helsta afleiðing áreitni og eineltis hjá bæði konum og körlum er vanlíðan í starfi. Einnig má greina löngun til að hætta í vinnunni og öryggisleysi utan vinnunnar hjá báðum kynjum.

Spurð um tilurð skýrslunnar segir Birna að áður en hún tók við sem forseti Sviðslistasambandsins hafi stjórnin ákveðið að láta vinna fyrir sig rannsókn, að norrænni fyrirmynd, á stöðu kynjanna í sviðslistum, m.a. með tilliti til kynbundins launamunar, hlutfalls kvenna í hópi listrænna stjórnenda og tækifæra kvenna almennt innan sviðslista. „Aðdragandinn hefur verið nokkuð langur þar sem tíma tók að finna fjármagn til að láta gera rannsóknina. Í millitíðinni reið #metoo-bylgjan yfir og þá breyttist fókusinn út frá þeirri stöðu sem blasti við í samfélaginu,“ segir Birna og bendir á að rannsókn RIKK taki mið af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið um málefnið í nágrannalöndum. „Okkur langaði að skoða kvikmyndabransann í leiðinni en það var ekki fjármagn til þess.“

Í ljósi þess að Birna er líka formaður Félags íslenskra leikara, sem er fjölmennasta stéttarfélagið sem á aðild að rannsókninni, liggur beint við að spyrja hvort félagið hafi fengið inn á borð til sín umkvartanir og ábendingar sem endurspegla rannsóknarniðurstöðurnar.

„Við höfum fengið fáar kvartanir um kynferðislega áreitni á undanförnum árum og fólk kvartað lítið undan kollegum sínum. Þær kvartanir sem við höfum fengið á undanförnum árum, bæði úr sviðslista- og kvikmyndageiranun, snúa mun frekar að eineltis- og kúgunartilburðum stjórnenda,“ segir Birna og bendir á að mögulega skýrist þetta af því að félagsmönnum finnist erfiðara að kvarta undan samstarfsfólki sínu en stjórnendum við stéttarfélag sitt. Segir hún það líka flækja málin hversu veikburða öll umgjörð utan um sjálfstætt starfandi listafólk sé.

Nánar er rætt við Birnu í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »