Svöruðu upplýsingabeiðni um mál dæmda níðingsins

Maðurinn var handtekinn á Spáni.
Maðurinn var handtekinn á Spáni. Ljósmynd/Spænska lögreglan

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra átti í samskiptum við spænsk lögregluyfirvöld vegna máls Íslendings sem var dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir barnaníð í Danmörku en yfirgaf landið fyrir afplánun og var handtekinn á Spáni í vikunni. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá embætti ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is. 

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra voru samskiptin á þá leið að beiðni spænskra lögregluyfirvalda um upplýsingar var svarað. Rannsóknin sé þó á forræði danskra yfirvalda og framsalsmálið á forræði spænska yfirvalda. Því vísar embætti ríkislögreglustjóra beiðnum um upplýsingar þangað. 

Ekki fengust svör við því hvort maðurinn hafi verið til rannsóknar hérlendis, en hann braut á dóttur sinni hér á landi skv. dómi sem féll í Danmörku, hvort hann eigi lengri brotaferil að baki eða um það hvort íslensk lögregluyfirvöld muni óska þess að hann verði framseldur hingað til lands.

Eins og mbl.is hefur áður greint frá var utanríkisráðuneytinu gert viðvart um málið. 

Spænska lög­regl­an sendi frá sér til­kynn­ingu um málið á þriðjudag. Þar kom fram að hún hefði hand­samað Íslend­ing sem flúði rétt­vís­ina í Dan­mörku þar sem hans bíður tólf ára fang­els­is­dóm­ur fyr­ir barn­aníð.

Maður­inn var fund­inn sek­ur um að hafa nauðgað dótt­ur sinni tíu sinn­um og beitt hana öðru lík­am­legu of­beldi. Þá var hann einnig fund­inn sek­ur um vörslu barnakláms. Brot­in áttu sér stað á ár­un­um 2006 til 2010, bæði hér á landi og í Dan­mörku. Hann lagði á flótta áður en afplán­un hófst. Því var evr­ópsk hand­töku­skip­un gef­in út á hend­ur mann­in­um í júní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert