Þrjú ár fyrir steypubílaakstur og íkveikju

Frá eldsvoðanum sem maðurinn kom af stað.
Frá eldsvoðanum sem maðurinn kom af stað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður sem fór í háskaför á steypubíl í miðbæ Reykjavíkur í mars síðastliðnum og kveikti í skemmtistaðnum Pablo Discobar hlaut þriggja ára dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í júnímánuði, bæði fyrir áður upptalin brot og nokkur önnur. 

Maðurinn var sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna steypubifreiðinni örugglega vegna ávana- og fíkniefna en í blóði hans mældist amfetamín og tetrahýdrókannabínól. Honum var gefið að sök að hafa tekið bifreiðina ófrjálsri hendi á Laugavegi við Vitastíg í Reykjavík og ekið henni í heimildarleysi án þess að sinna fyrirmælum lögreglu um að stöðva bifreiðina. Með akstrinum er maðurinn sagður hafa raskað umferðaröryggi á alfaraleið og stofnað „á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu vegfarenda í augljósan háska“. 

Maðurinn ók frá Laugavegi við Vitastíg vestur Bankastræti, þaðan, án þess að gefa stefnumerki, ók hann bifreiðinni norður Lækjargötu, þar sem lögregla gaf ákærða merki um að stöðva bifreiðina án árangurs, áfram norður Kalkofnsveg og suður Sæbraut.

Ökumaður steypubílsins ók á móti umferð og upp á hjólastíg …
Ökumaður steypubílsins ók á móti umferð og upp á hjólastíg og gangstétt við Sæbraut. Lögregla veitti bílnum eftirför. Ljósmynd/Aðsend

„Skömmu áður en ákærði kom að gatnamótum Sæbrautar og Snorrabrautar ók ákærði bifreiðinni yfir umferðareyju, yfir á rangan vegarhelming þar sem hann ók bifreiðinni í öfugri akstursstefnu og er hann kom að gatnamótunum ók hann bifreiðinni, gegn rauðu ljósi, yfir á grasbala sem liggur við göngustíg sem liggur samhliða Sæbraut, á grasbalanum ók ákærði bifreiðinni á um 50 - 60 km hraða á klukkustund. Ákærði ók bifreiðinni áfram á grasbalanum meðfram göngustígnum og síðan eftir göngustígnum er hann nálgaðist gatnamót Sæbrautar við Laugarnestanga, þar sem hann ók bifreiðinni yfir gangbraut við gatnamótin og áfram eftir göngustíg samhliða gagnstæðri akrein á Sæbraut til austurs, uns ákærði ók bifreiðinni skyndilega til norðurs á grasblett sunnan við malarbifreiðarstæði við Köllunarklettsveg 3, þar sem ákærði yfirgaf bifreiðina og hljóp á brott,“ segir í dómnum. 

Á nokkurn sakaferil að baki

Þá var manninum gefið að sök að hafa þann 18. mars sl. brotist inn í húsnæði Curious bar við Hafnastræti í Reykjavík og stolið þaðan ýmsu. Síðan fór maðurinn inn í húsnæði Pablo Discobar sem er í næsta húsi við Curious bar. Þar er honum gefið að sök að hafa stolið ýmsu áður en hann lagði eld með gasbrennara að pappír og öðrum hlutum á gólfi í starfsmannaaðstöðu. 

„Í kjölfarið bar hann pappír að eldinum og gekk með hann á annan stað í herberginu og síðar bar hann stól að eldinum. Með athæfi sínu olli ákærði eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu og yfirgripsmikið eignatjón, sem og hættu á eyðingu alls húsnæðisins og nærliggjandi húsa, hefði eldurinn náð að breiðast enn frekar út, en slökkvilið réð niðurlögum eldsins,“ segir í dómnum. 

Maðurinn hafði setið í gæsluvarðhaldi frá 19. mars sl. Hann á nokkurn sakaferil að baki og hefur verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 2006 hlotið refsingu fyrir eignaspjöll, þjófnað, nytjastuld, umferðarlagabrot, líkamsárásir og fíkniefnalagabrot.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust, samkvæmt dómnum en brot hans eru mörg hver litin mjög alvarlegum augum. 

mbl.is