„Þú hættir ekki bara að gefa hundinum“

Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, eigandi Gæludýra.is.
Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, eigandi Gæludýra.is. Ljósmynd/Aðsend

Nauðsynlegt er að hafa í huga að gæludýraverslanir eru matvöruverslanir gæludýra og um þær ættu að gilda sömu takmarkanir og um aðrar matvöruverslanir. Þetta segir Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, eigandi Gæludýra.is. 

Á morgun taka gildi hertar sóttvarnareglur á Íslandi og mega þá aðeins tíu koma saman í verslunum öðrum en matvöruverslunum og lyfjaverslunum. Ingibjörg hefur sent heilbrigðisráðherra fyrirspurn um hvort þessi undanþága nái einnig til verslana sem selja gæludýrafóður. „Þú hættir ekki bara að gefa hundinum þínum,“ segir Ingibjörg. „Þegar maður fær sér dýr ber manni að sjá um það samvæmt dýraverndarlögum.“

Hún segir ekki hægt að kaupa fóður fyrir öll dýr í hefðbundnum matvöruverslunum, og þá viti allir hundaeigendur til dæmis að maður skipti ekki um fóðurtegund svo glatt.

Gæludýr.is reka fjórar verslanir á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akureyri. Ingibjörg segir að ekki hafi reynt á sóttvarnareglurnar hingað til. En nú þegar aðeins tíu mega koma saman hafi hún áhyggjur af flöskuhálsi og jafnvel biðröðum utan við verslunina. 

„Ég hef sérstakar áhyggjur núna þegar eru að koma mánaðamót. Margir birgja sig upp af fóðri einu sinni í mánuði, um mánaðamótin. Það var til dæmis bilað að gera í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert