Vannýtt heimild vegna fjarfunda

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Ákærendur segja að bráðabirgðaheimild varðandi skýrslutökur og aðra meðferð dómsmála í gegnum fjarfundabúnað sé ekki notuð eins og ákjósanlegt er vegna skorts á viðeigandi tækjabúnaði hjá dómstólunum.

Þetta kemur fram í umsögnum Ákærendafélags Íslands og héraðssaksóknara við frumvarp dómsmálaráðherra um framlengingu bráðabirgðaheimildarinnar sem var sett í vor, að því er Fréttablaðið greindi frá í morgun.

„Í sumum tilvikum hefur skýrslugjafi hreinlega staðið úti á götu í heimabæ sínum en í öðrum tilvikum hafa dómarar verið strangir á því að skýrslugjafi sé á tilteknum stað og í einrúmi við skýrslugjöfina,“ segir í umsögn Ákærendafélagsins.

Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, segir aftur á móti í samtali við Fréttablaðið að allir dómstólar hafi þann tækjabúnað sem þurfi. Vandinn sé sá að búnaðurinn þurfi að tryggja bæði möguleika á fjarfundum og upptöku á öllu sem fram fari í hljóð og mynd. Aðeins tveir dómstólar séu komnir með heildstætt kerfi sem tryggi hvoru tveggja, Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur. Þar virki kerfið vel og verði innleitt við aðra dómstóla landsins á næstu vikum og mánuðum.

mbl.is