Ekki mjög sexí í þessu ástandi

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur.
Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur. Eggert Jóhannesson

Halldór Armand Ásgeirsson rihöfundur, sem sendir nú frá sér sína fjórðu bók, Bróður,  viðurkennir að hann upplifi kvíða vegna óvissunnar framundan í jólabókaflóðinu, sem hann hafi ekki gert áður vegna útgáfu sinna bóka.

„Það tekur alveg á að gerast „sölumaður“ og fylgja bókinni eftir. Ég verð kvíðinn og kvíðanum fylgir sjálfsefi sem breytist í sjálfhverfu og alls konar ruglaðar hugsanir um að ég sé nú svo ómögulegur eða að enginn muni hafa áhuga á því sem ég skrifa, bókin ekki seljast neitt og svo framvegis. Maður er ekki mjög sexí í þessu ástandi og ég geri náttúrulega vini mína og vinkonur brjáluð með símtölunum,“ segir hann hlæjandi.

„Covid virðist hins vegar gera svona kvíða verri. Mig grunar að ég sé ekki einn um þetta, covid er rosaleg olía á eld sem er fyrir hjá fólki víða um heim, oft ómeðvitað. Búið er að snúa lífi okkar á hvolf og maðurinn er nú einu sinni þannig forritaður að hann ræður illa við óvissu. Sjálfur er ég ekkert hræddur við veiruna sem slíka en ég óttast áhrif hennar, til dæmis þá gígantísku efnahagskreppu sem þjóðin og heimurinn allur standa frammi fyrir. Svo veit maður ekkert hvenær þessu ástandi lýkur.“

Hann hefur verið að lesa mikið af gamalli stóuspeki undanfarið og tengir nú við hana sem aldrei fyrr. „Ég hef lesið þetta oft áður en fyrst núna finnst mér þessi speki verða áþreifanleg. Ég er hérna að endurlesa Epíktetus uppi í sófa og hugsa með mér: Heyrðu, ég skil núna hvað þú átt við, gamli!“

Í Bróður er hermt af systkinunum Skarphéðni Skorra og Hrafntinnu Helenu, svipmiklum persónum með svipmikil nöfn. Afar kært er með þeim systkinum og hann gætir hennar, sem er sjö árum yngri, sem sjáaldurs augna sinna. Síðan gerist eitthvað sem verður til þess að þau fjarlægjast og hætta á endanum að talast við. Enginn veit hvað komið hefur upp á nema þau tvö en smám saman komumst við lesendur til botns í málinu. Hræðilegt leyndarmál kraumar undir niðri og ekkert verður eins og það áður var. Sagan spannar um tvo áratugi og í bakgrunninum eru meðal annars stórviðburðir í Íslandssögunni, svo sem bankahrunið og EM í knattspyrnu 2016.

Halldór langaði að skrifa öðruvísi bók en áður, með meira …
Halldór langaði að skrifa öðruvísi bók en áður, með meira plotti og spennu. Eggert Jóhannesson


Leiðin til framfara

Ég hef áður lesið bækur eftir Halldór og kom því ekki á óvart að stíllinn væri lipur, hnyttinn og heimspekilegur en hinu bjóst ég ekki við, að bókin yrði svona spennandi.

„Já, fannst þér hún spennandi?“ segir Halldór og brúnin á honum lyftist. „Það gleður mig enda tók ég meðvitaða ákvörðun um að hafa þessa bók öðruvísi og meira grípandi og spennandi en fyrri bækur mínar. Samt var ég svolítið hræddur við það enda var ég að róa á ný mið í mínum skrifum og hafði aldrei skrifað klassíska sögu sem var drifin svona áfram af plotti. En ég vildi líka einmitt gera eitthvað sem ég óttaðist. Það er vonandi leiðin til framfara, er það ekki? Síðan reyndist bara alveg fáránlega gaman að móta spennandi plott,“ útskýrir Halldór sem er menntaður lögfræðingur. „Það er ákveðin kúnst að byggja upp spennu og mér finnst alltaf aðdáunarvert þegar höfundar ríghalda athygli manns og maður vill helst ekki leggja bókina frá sér. Margir krimmahöfundar eru snillingar í þessu.“

– Stúderaðir þú krimma þá sérstaklega?

„Nei, ég er reyndar ekki vel að mér í þeim. Ég reyndi bara að fylgja innsæinu og þetta var gríðarleg klippivinna þegar kom að því að mjatla út upplýsingum. Galdurinn er að segja ekki of mikið of snemma.“

Nánar er rætt við Halldór Armand í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »