Erlendum ferðamönnum fjölgar hratt á Tenerife

Frá Tenerife.
Frá Tenerife. AFP

„Mest eru þetta Bretar, Þjóðverjar og Svíar sem eru að koma hingað. Ég held að það sé 171 flug hingað til Kanaríeyja í vikunni,“ segir Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er jafnan kallaður. Vísar hann þar til straums ferðamanna til spænsku eyjunnar Tenerife. Svali hefur verið búsettur á eyjunni í rúm tvö ár, en hann er nýfluttur aftur til Tenerife eftir að hafa dvalið á Íslandi í sumar. Var það sökum heimsfaraldurs kórónuveiru, en hann hefur rekið fyrirtækið Tenerife-ferðir.

Að sögn Svala var nýverið opnað á ferðir til eyjunnar, en til að koma í veg fyrir smit er öllum sem þangað koma gert að fara í sýnatöku. „Fyrst var ferðamönnum ekki skylt að láta taka úr sér sýni. Núna er hins vegar neikvætt próf orðið skilyrði til að þú komist inn á eyjuna. Flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki hafa í mörgum tilfellum greitt sýnatökuna fyrir ferðamennina og það hjálpar til,“ segir Svali.

Fá margar fyrirspurnir

Aðspurður segir hann að ýmsar takmarkanir séu í gildi en þó þannig að fólk geti lifað tiltölulega eðlilegu lífi. „Það er grímuskylda og þú verður að virða fjarlægðarmörk. Aftur á móti mega hundrað manns koma saman á veitingastöðum, en öryggisverðir fylgjast með að allt fari vel og rétt fram,“ segir Svali en tekur fram að skiptar skoðanir séu meðal eyjarskeggja um hvort opna eigi Tenerife að nýju. „Það gengur svo vel og það eru fá smit þannig að ég held að íbúum hér sé ekkert endilega vel við að hleypa fólki inn.“

Sigvaldi Kaldalóns eða Svali eins og hann er kallaður.
Sigvaldi Kaldalóns eða Svali eins og hann er kallaður. mbl.is/Golli

Sjálfur rekur Svali fyrirtækið Tenerife-ferðir, sem líkt og nafnið gefur til kynna sérhæfir sig í ferðum til eyjunnar. Spurður hvort mikill áhugi sé meðal Íslendinga á að ferðast til eyjunnar kveður Svali já við. Hins vegar sé þess beðið að íslensk flugfélög hefji flug þangað að nýju. „Ég veit ekki hvað flugfélögin ætla að gera heima. Ég held að þau séu í biðstöðu enda er dýrt að hefja flug og þurfa svo að hætta við. Hingað til hef ég verið að senda fólk í gegnum Manchester, en við fáum alveg svakalega mikið af fyrirspurnum,“ segir Svali sem vonast til þess að fljótlega geti fleiri Íslendingar komið.

„Ef ástandið helst gott held ég að hægt verði að hefja flug í lok nóvember. Einhverjir segja hins vegar að páskarnir séu raunhæfur möguleiki. Fólk þarf að fá ferðakjarkinn aftur og byrja að lifa með veirunni.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert