Hvaða reglur tóku gildi á miðnætti?

Þríeykið Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller.
Þríeykið Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller. Ljósmynd/Lögreglan

Á miðnætti tóku hertar sóttvarnareglur gildi með gildistöku reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Um er að ræða hörðustu sóttvarnareglur sem hafa verið í gildi hér á landi en aldrei hafa fjöldatakmarkanir verið jafn þröngar.

Reglugerðin byggir á minnisblaði sóttvarnalæknis en ein breyting var gerð á tillögum hans, heilbrigðisráðherra heimilaði fleirum að koma saman í útförum en sóttvarnalæknir hafði lagt til. Því mega 30 mæta í útfarir en einungis 10 í erfidrykkju.

Helstu breytingar á fyrri reglum eru þær að nú mega ekki fleiri en 10 manns koma saman og reglurnar gilda einnig um börn á grunnskólaaldri. Það gerðu þær ekki áður. Þá er allt íþróttastarf óheimilt en ráðherra getur veitt undanþágu frá því fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlega keppnisleiki. Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing. 

Sundlaugum lokað á landsvísu

Sundlaugum er nú lokað á landsvísu en áður var þeim einungis lokað á höfuðborgarsvæðinu. Krám og skemmtistöðum er áfram lokað og áfram mega veitingastaðir með vínveitingaleyfi ekki hafa opið lengur en til 21.00. 

Þá eru sviðslistir óheimilar og grímuskylda gildir þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra reglu. 

Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila. Þá gilda þær ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla. Fjöldatakmarkanir eiga ekki við þegar fleiri en 10 manns búa á sama heimili. 

50 manna hámarksfjöldi er í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins.

Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu, áður gilti sú regla um börn fædd 2005 og síðar. 

Hvaða undanþágur má ráðherra veita?

Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkunum vegna félagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast. Þar undir fellur m.a. heilbrigðisstarfsemi og félagsþjónusta. Þá getur ráðherra veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlegra keppnisleikja.

Ný reglugerð um takmarkanir á skólastarfi verður kynnt í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina