Íbúar ósáttir með tæmingu Árbæjarlóns

Árbæjarlón var tæmt til frambúðar í gær.
Árbæjarlón var tæmt til frambúðar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og formaður íbúaráðs í Árbæ, segir tæmingu Árbæjarlóns til frambúðar vera vanhugsaða ákvörðun sem tekin hafi verið án samráðs við íbúa á svæðinu. „Þetta er mál sem kemur íbúunum við, þetta er umhverfi íbúanna í þessu hverfi,“ segir Þorkell í samtali við mbl.is.

Árbæjarlón, sem myndaðist fyrir ofan stíflu í Elliðaárdal, hefur verið tæmt nánast á hverju vori síðan stíflan var byggð til að hleypa löxum upp ána. Í lóninu hafði myndast auðugt fuglalíf, og var það jafnan kallað Andapollurinn af íbúum svæðisins. Nú er hins vegar búið að tæma lónið í síðasta skipti og verður í staðinn komið á náttúrulegu rennsli í gegnum stífluna.

Ákvörðun um tæmingu lónsins var tekin af Orkuveitu Reykjavíkur, í samráði við Hafrannsóknastofnun, og er ráðist í þessar aðgerðir til að styrkja lífríkið á svæðinu og færa árnar nær sinni náttúrulegu mynd.

Vissu ekki af fyrirhuguðum aðgerðum

Þorkell, sem er formaður íbúaráðs í hverfinu, segist ekki vera mótfallinn tæmingunni en að samráð hafi ekki verið haft við íbúa.

„Mér finnst alltaf mjög sorglegt þegar góð mál verða þessu að bráð, fólki bara bregður í brún. Það sér þetta bara í fréttum, það er búið að breyta okkar umhverfi einn, tveir og þrír og ekki vissum við um þetta,“ segir Þokell.

Árnar eiga vissulega í vök að verjast og er eðilegt að líta til þess hvernig hægt sé að draga úr áhrifum vikjana og stífla á lífríki þeirra, að mati Þorkels sem segir að það megi þó ekki gera á kostnað samfélagsins í kringum þær.

Þorkell Heiðarsson líffræðingur
Þorkell Heiðarsson líffræðingur Ljósmynd/Facebook

„Það sem ég hef lagt áherslu á er að þetta umhverfi þarna er mjög ríkur partur af umhverfi Árbæinga. Þegar gerðar eru grundvallarbreytingar á þessu umhverfi, sem snerta náttúrulega alla þarna og fleiri til, er mjög eðlilegt að þær séu kynntar fyrir íbúum, hvað standi til og hvaða áhrif þær muni hafa.“

Hann segir mikilvægt að taka öll sjónarmið til skoðunar þegar ráðist er í framkvæmdir af þessu tagi. „Þegar manngerðum hlut sem hefur staðið í hundrað ár er breytt þá hefur það áhrif á umhverfið, líka lífríkið,“ segir Þorkell. „Á þessum tíma hefur verið ákveðinn taktur í því að fylla og sleppa úr lóninu. Þessi tilbúni taktur okkar mannanna hefur líka skapað ákveðið lífríki sem felst í ríkara fuglalífi og sérstaklega sundfuglum, öndum og gæsum.“

Hefði verið hægt að fara milliveg

Í skýrslu Orkuveitunnar, sem Arnór Þórir Sigurðsson fuglafræðingur vann, er bent á mótvægisaðgerðir sem Þorkell segir góðan milliveg svo sá hluti lífríkins sem fest hefur rætur í lóninu geti fengið að njóta sín áfram án þess að það bitni á öðrum hlutum þess. Þar er lagt til að útbúin sé lítil tjörn við hliðina á lóninu með leirbotni úr því sem fuglalífið gæti þá nýtt sér. Ákveðið hafi verið að gera það ekki.

„Þá fengi fólk að njóta þess sem það upplifir sem missi núna,“ segir Þorkell.

Hann segist ekki skilja hvers vegna legið hafi svona mikið á því að tæma lónið strax, réttara hefði verið að bíða með það þar til íbúar svæðisins hefðu fengið tækifæri til að tjá sig um það.

„Það getur ekki breytt öllu, ár til eða frá í þessu samhengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert